Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Undirbúa fjölmargar framkvæmdir ársins
Þriðjudagur 19. febrúar 2019 kl. 09:05

Undirbúa fjölmargar framkvæmdir ársins

Sveitarfélagið Vogar vinnur markvisst að undirbúningi framkvæmda ársins. Samkvæmt samþykktri
fjárhagsáætlun bæjarsjóðs fyrir árið eru ýmsar framkvæmdir á döfinni, samkvæmt samantekt Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra sveitarfélagsins. 
 
Framkvæmdir við byggingu nýrrar þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins eru þegar hafnar, og er jarðvinnan vel á veg komin. Nú er unnið að gerð útboðsgagna fyrir þau verk sem unnin verða yfir sumarmánuðina. Þar má t.a.m. nefna endurnýjun norðurhluta götunnar Kirkjugerðis, þ.e. endurnýjun lagna, yfirborðs og gangstétta. 
 
Stapavegurinn fær einnig andlitslyftingu, en kaflinn milli Hafnargötu og Iðndals fær nýtt yfirborð og gatan verður þrengd lítillega. Með því móti verður lagnasvæðið meðfram götunni komið út fyrir vegstæðið, sem munar miklu ef af einhverjum ástæðum þarf að komast í lagnirnar, t.d. vegna bilana. 
 
Vatnsveita og fráveita verða lögð inn á tjaldsvæðið, þannig að unnt verði að koma fyrir nýju og rúmgóðu aðstöðuhúsi fyrir gesti svæðisins, auk þess sem rekstraraðili þess hyggst reisa þar nokkur smáhýsi til útleigu fyrir ferðamenn. 
 
Síðast en ekki síst er fyrirhugað að ráðast í framkvæmdir við fráveituna, með því að byggja litla dælustöð neðan við Akurgerði og leggja s.k. þrýstilögn þaðan að útrásinni við hafnargarðinn. Þar verður einnig byggð lítil dælistöð með hreinsibúnaði. Loks er ráðgert að leggja göngu- og hjólreiðastíg milli Voga og Brunnastaðahverfis, meðfram Vatnsleysustrandarveginum. Síðast en ekki síst er lagning ljósleiðara í dreifbýlinu á verkefnalista ársins. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024