Undirbúa 55% fjölgun íbúa
Íbúum á Suðurnesjum mun fjölga um 55 prósent á næstu þrettán árum samkvæmt spá Framtíðarseturs Íslands um búsetuþróun. Íbúar á Suðurnesjum eru nú um 22.600 en verða 34.800 talsins árið 2030 gangi spá setursins eftir. Svo mikil fjölgun íbúa kallar á undirbúning hjá sveitarfélögum á Suðurnesjum. „Þetta er óvenju mikil fjölgun íbúa og við verðum að skoða vel hvað hún hefur í för með sér,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hjá Heklunni, atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja, er nú unnið að innviðagreiningu til að undirbúa fólksfjölgunina. Að sögn Berglindar er með henni kannað hvort til staðar sé það sem þarf til að mæta breyttu og fjölmennara samfélagi. „Við erum byrjuð á greiningunni og vonumst til að ljúka henni í vor. Við munum þar setja upp nokkrar sviðsmyndir og vinnum þann hluta áfram með Kadeco og Isavia. Til að mynda vitum við ekki fyrirfram hvort fjölskyldufólk verður í meirihluta þeirra sem hingað flytja eða hvort hingað komi fólk til að vinna tímabundið. Það verður kúnst að skoða þetta og bera saman,“ segir hún.
Berglind segir mikilvægt að halda rétt á spöðunum eigi móttaka nýju íbúanna að ganga sem skyldi. „Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að ef við skipuleggjum okkur ekki er hætta á því að hlutirnir fari ekki á besta veg. Það er mikilvægt að við verðum tilbúin.“
Gert er ráð fyrir að fjölgun íbúa verði nokkuð jöfn meðal sveitarfélaga. Sé horft til undanfarinna mánaða þá hefur íbúum fjölgað í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum og mikil eftirspurn verið eftir húsnæði. „Það er óhætt að segja að það sé uppvaxtarskeið hjá okkur núna enda atvinnuástandið með besta móti,“ segir Berglind.
Meðal þess sem skoðað er í greiningu Heklunnar eru skipulagsmál, landnotkun, orkuvinnsla, hafnarsvæði, iðnaður, íbúasvæði, vinnumarkaðurinn, samgöngur og flutningar. „Við skoðum einnig framboð lóða og reynum að leggja mat á þörf á uppbyggingu leikskóla og grunnskóla á svæðinu.“
Grafið sýnir þróun á fjölda íbúa á Suðurnesjum frá árinu 1946.
Gera húsnæðisáætlun til næstu ára
Bæjaryfirvöld í Sandgerði eru byrjuð að undirbúa fjölgun íbúa. Nýlega hófst vinna við gerð húsnæðisáætlunar til næstu þriggja, fimm og tíu ára, að sögn Sigrúnar Árnadóttur, bæjarstjóra í Sandgerði. „Auk þess liggur fyrir aðalskipulag til ársins 2024 og í því er gert ráð fyrir íbúðabyggðum á óbyggðum svæðum og þjónustu sem þörf er á vegna fjölgunar íbúa, svo sem leikskóla og grunnskóla,“ segir hún.
Úthluta lóðum fyrir 22 íbúðir
Sveitarstjórnin í Vogum hefur ekki tekið sérstaklega til umfjöllunar spá Framtíðarseturs um fjölgun íbúa á Suðurnesjum til ársins 2030, að sögn Ásgeir Eiríkssonar, bæjarstjóra Sveitarfélagsins Voga. „Hér, eins og annars staðar á Suðurnesjum, hefur verið talsverð fjölgun íbúa og mikil eftirspurn eftir íbúðahúsnæði. Sveitarfélagið hyggst úthluta lóðum fyrir að minnsta kosti 22 íbúðir í sumar. Það fer eftir viðbrögðunum hvernig framhaldið verður,“ segir Ásgeir. Hann bendir á að sveitarstjórnarkosningar verði haldnar á næsta ári og viðbúið að ný bæjarstjórn hefjist handa í upphafi nýs kjörtímabils við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins, en þá verður skipulagstímabilið hálfnað. „Í þeirri vinnu mun án efa verða tekið til ýmissa þátta, þar með talið spá Framtíðarseturs og annars sem máli kann að skipta í þessu sambandi.“
Framkvæmdir við nýjan grunnskóla að hefjast
Endurskoðun aðalskipulags, sem meðal annars tekur á þörf fyrir grunnskóla, leikskóla, samgöngur og húsnæði stendur nú yfir hjá Reykjanesbæ. Að sögn Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæ, eru þrjár sviðsmyndir í aðalskipulaginu, eftir því hver fjölgunin verður; lágspá, miðspá og háspá. „Eins og fjölgunin er núna eigum við lóðir og innviði til ársins 2019. Framkvæmdir við nýjan grunnskóla, sem einnig mun hýsa leikskóla, hefjast síðar á þessu ári, strætókerfið okkar er í endurskoðun og byggingar nýrra íbúða eru að hefjast, bæði hjá einstaklingum og verktökum.“ Þá segir Kjartan mikilvægt að passa upp á að þjónusta Reykjanesbæjar varðandi barnavernd, þjónustu við fatlaða og aldraða haldi í við fjölgun íbúa.
Vel í stakk búin að taka við nýjum íbúum
Í gildandi aðalskipulagi Grindavíkur voru tvær sviðsmyndir settar upp. Önnur felur í sér að í lok skipulagstímabilsins fjölgi íbúum um 700 og miðað er við 2,5 íbúa í íbúð. Til að anna þörf þyrfti til ársins 2030 að byggja 280 íbúðir eða 14 íbúðir á ári. Síðari sviðsmyndin sem kölluð er bjartsýnisspá segir að íbúafjölgun væri 1150 manns en ennþá miðað við 2,5 íbúa í íbúð, slík uppbygging myndi krefjast 460 íbúða, 23 íbúða á ári. Þetta kemur fram í svari frá Grindavíkurbæ við fyrirspurn Víkurfrétta. Töluvert pláss er í Grindavík fyrir nýja íbúabyggð sem þegar hefur verið deiliskipulögð, til að mynda norðan Hópsbrautar. Þá hefur nýlega verið samþykkt deiliskipulag fyrir gamla bæinn.
Nýr leikskóli er á aðalskipulagi og þá er gert ráð fyrir önnur af starfsstöðvum grunnskólans geti stækkað þegar þörf krefur og er líklega stutt í að sú framkvæmd verði nauðsynleg. Í svari Grindavíkurbæjar segir að sveitarfélagið hafi stigið varlega til jarðar og lagt áherslu á jafna og skynsamlega uppbyggingu innviða og reynt að mæta fyrirsjáanlegri þörf nokkur ár fram í tímann. Bæjarfélagið sé því vel í stakk búið að taka á móti nýjum íbúum á næstu árum.
Stækka grunnskólann á þessu ári
Sveitarfélagið Garður vinnur að því á ýmsum sviðum að mæta þeirri þróun sem fjallað er um í spá Framtíðarseturs, að sögn Magnúsar Stefánssonar, bæjarstjóra. „Hafa ber í huga að á innan við tveimur árum hefur orðið alger umbylting á stöðu atvinnu-og búsetumála á Suðurnesjum og slíkar breytingar á mjög stuttum tíma setja alla aðila í erfiða stöðu, þar sem margar nauðsynlegar aðgerðir sveitarfélaga taka sinn tíma og nægir þar að nefna skipulagsmálin. Þá tekur einnig sinn tíma að byggja upp innviði þar sem þörf er á, svo sem grunnskóla og leikskóla. Hitt er svo annað að erfitt er að sjá nákvæmlega fyrir hvernig spá um fjölgun íbúa á Suðurnesjum muni ganga eftir til lengri tíma og ekki síður hvernig fjölgun íbúa á svæðinu muni dreifast á sveitarfélögin. Allt hefur það sín áhrif á uppbyggingu innviða í sveitarfélögunum,“ segir Magnús. Unnið er að því ýmsan hátt í Garði að mæta þeim miklu breytingum sem orðið hafa á samfélaginu og á Suðurnesjum á örstuttum tíma og útlit er fyrir að verði í náinni framtíð. Magnús nefnir skipulagsmálin sem samkvæmt gildandi deiliskipulagi er töluvert framboð af íbúarlóðum til úthlutunar en unnið er að því að endurskoða gildandi deiliskipulag í einu íbúðahverfi og vinna nýtt deiliskipulagi á öðru svæði í sveitarfélaginu með það að markmiði að bjóða upp á sem fjölbreyttasta möguleika á uppbyggingu íbúðarhúsnæði. „Samhliða þessu er unnið að gerð húsnæðisáætlunar fyrir sveitarfélagið, sem mun taka á og fjalla um margt af því sem hafa þarf í huga í tengslum við húsnæðismálin,“ segir hann.
Hafist verður handa við stækkun grunnskólans á þessu ári en fyrirséð er að á næstunni muni vanta fleiri kennslustofur. Þá er að hefjast vinna við að skoða hvernig best sé að mæta þeirri stöðu að leikskólinn sé orðinn fullnýttur og þörf á fleiri leikskólaplássum. „Þá má nefna að sú vinna sem stendur yfir við að skoða kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar felur í sér að fram komi tillögur og lausnir sem miða að því að mæta fjölgun íbúa með uppbyggingu innviða, hvort sem af sameiningu sveitarfélaganna verður eða ekki,“ segir bæjarstjórinn í Garði.
[email protected]