Undir aldri á skemmtistað á Suðurnesjum
Lögreglan á Suðurnesjum hafði um helgina afskipti af tveimur ungmennum, sextán ára stúlku og sautján ára pilti, sem voru inni á skemmtistað í umdæminu. Farið var með þau á lögreglustöð og hringt í foreldra þeirra, sem sóttu þau.
Á sama skemmtistað ræddu lögreglumenn við átján ára pilt sem var áberandi ölvaður og með bjórglas í hendi. Hann neitaði að hafa sjálfur keypt áfengið á bar staðarins.
Vegna þessara mála ræddu lögreglumenn við rekstraraðila staðarins og gerðu honum grein fyrir að lögregluskýrsla yrði rituð vegna fyrrnefnda málsins. Mál af því tagi eru tilkynnt leyfisveitanda skemmtistaða, í þessu tilviki sýslumanninum í Keflavík.