Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Umsvif Sandgerðishafnar aukast til muna með tilkomu byggðakvóta“
Föstudagur 28. október 2005 kl. 11:42

„Umsvif Sandgerðishafnar aukast til muna með tilkomu byggðakvóta“

Sandgerðisbær fékk úthlutað 140 tonnum af byggðakvóta sem sjávarútvegsráðuneytið úthlutaði á dögunum, sem er 5 tonnum minna en bærinn fékk úthlutað í fyrra.  Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði, segist ánægður með úthlutunina og reiknar með að um 20 sæki um að þessu sinni, sem er svipað og var í fyrra, en umsóknarfrestur rennur út 31. október.

Hann segir þetta  í fjórða  skipti sem sérstök stjórn úthluti byggðakvótanum í Sandgerði. „Að þessu verkefni koma útgerðaraðilar báta sem skráðir eru í Sandgerði og fiskvinnslur sem eru með lögheimili í sveitarfélaginu. Það er skilyrði í úthlutuninni á byggðakvótanum að aflanum sé landað í Sandgerðishöfn,“ segir Sigurður.

Hann segir að með tilkomu byggðakvótans hafi umsvif Sandgerðishafnar aukist til muna. Rekstur hafnarinnar gengur nú betur en undanfarin ár og hefur tekist að  snúa  26 milljóna króna taprekstri niður á núllið.

Hann segir fá byggðafélög hafa misst eins miklar aflaheimildir frá sér og Sandgerðisbær gerði á sínum tíma þegar kvótakerfinu var komið á.  „Hér í bænum voru aflaheimildir upp á um 11 þúsund tonna þegar best lét, en fór síðan niður í 400 tonn. Við erum aðeins að rétta okkur hlut aftur og erum nú með um 1.800 tonna kvóta,“ sagði Sigurður Valur.

Hann sagði að íbúum hafi fjölgað í Sandgerði um rúmlega 100 manns og væru bæjarbúar nú komnir í 1.507 talsins, en voru 1.400 um síðustu áramót. „Hér í Sandgerði hefur aldrei verið neitt atvinnuleysi sem orð er á gerandi og njótum við góðs af nærveru okkar við höfuðborgarsvæðið og Keflavíkurflugvöll í þeim efnum. Frá því að við misstum mestan hluta kvótans hefur verið sérstak átak hér í gangi í atvinnumálum og hefur það skilað góðum árangri,“ sagði bæjarstjórinn.

Sigurður Valur er ánægður með þá uppbyggingu sem á sér stað í Sandgerði og hann segir að það sé mikill áhugi fyrir lóðum og í ár hafi 137 lóðum verið úthlutað. Ástæðuna segir hann helst vera þá að í Sandgerði séu stofngjöld húsnæðis með því lægsta sem gerist á landinu.

Mynd/Víkurfréttir: Frá Sandgerðishöfn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024