Umsókn um undanþágu synjað
Sérdeild fyrir einhverf börn í Holtaskóla var á dögunum synjað um undanþágu til að hefja kennslu í verkfallinu. Jónína Guðmundsdóttir skólastjóri Holtaskóla segir börnunum hafa farið mikið aftur og að hún muni í samráði við Eirík Hermannsson fræðslustjóra Reykjanesbæjar leggja inn nýja umsókn sem fyrst.
„Nú erum við að vinna að nýrri umsókn í von um að hún verði samþykkt og að kennsla geti hafist fyrir þau einhverfu börn sem ganga í Holtaskóla,” sagði Jónína Guðmundsdóttir í samtali við Víkurfréttir í gær. Kennarasambandið krefst þess að ef umsóknin verði samþykkt þá eigi allir þeir er koma að einhverfu börnunum innan skólans að taka aftur til starfa en Jónína sagði að nóg væri að kalla inn tvo kennara.
„Einhverfu börnin þurfa mjög sterkan ramma í sitt daglega líf en það er búið að setja hann úr skorðum og þessum börnum hefur farið mikið aftur, þó má ekki gleyma því að um aðrar fatlanir er einnig að ræða og fötluð börn, önnur en einhverf, bíða þessa verkfalls einnig skaða,” sagði Jónína sem stefndi að því að leggja inn nýja beiðni fyrir kennslu til handa einhverfum börnum í Holtaskóla sem allra fyrst.
VF-mynd/ Oddgeir Karlsson