Umhverfisverðlaun veitt á Sandgerðisdögum
Eigendur Túngötu 9, Hólagötu 13 og Strandgötu 16 í Sandgerði hlutu umhverfisverðlaun Sandgerðisbæjar sem afhent voru í vikunni á Sandgerðisdögum. Verðlaunahafar fengu afhentan blómvönd, viðurkenningaskjal og merktan stein efitr listakonuna Ástu Óskarsdóttur í Garði.
Um garðinn við Túngötu 9 segir í umsögn dómnefndar að hann beri vott um snyrtimennsku, metnað og dugnað með einkar tilkomumiklu útliti. Plöntufjölbreytni sé ríkjandi þar sem bæði fjölær gróður og trjágróður skarti sínu fegursta yfir sumartímann. Gróskumikill garðurinn sé skýrt dæmi um fjölbreytta möguleika í ræktun og hvatning til margbreytileika ræktunar í bæjarfélaginu.
Í umsögn dómnefndar segir að húsinu við Hólagötu sé sérstaklega vel við haldið og sé snyrtilegt hús með fallegri lóð. Ávalar línur séu í hönnun lóðar og stéttar og samsett með möl, vatni og fallegum gróðri sem skapi sérlega aðlaðandi og vel heppnaða heild.
Seacrest Iceland ehf. við Strandgötu 16 hlaut verðlaun fyrir snyrtilegt umhverfi fyrirtækis. Í umsögn dómnefndar segir að byggingin, sem er nýleg, sé einkar vel frágengin í alla staði. Lóðin sé látlaus og að mestu fullfrágengin og beri augljós merki snyrtimennsku. Starfsemin hafi látlaust yfirbragð og hönnun byggingar og lóðar sé þess valdandi að lítið fari fyrir starfseminni í nánasta umhverfi.