Umhverfisvænn leikskóli í Grindavík
Bæjarstjórn Grindavíkur hefur ákveðið að taka tilboði Ístaks hf. og Nýsis hf. í byggingu og rekstur leikskóla. Um er að ræða fjögurra deilda leikskóla sem býður upp á 80 heilsdagspláss, en gert er ráð fyrir að um 110 börn verði á leikskólanum í heils– og hálfsdagsvistun. Við hönnun lóðar og val á leiktækjum var haft að leiðarljósi að það samrýmdist þörfum leikskólabarna, stærð, lögun og öryggissjónarmið vógu þar hæst. Bygging og lóð eru hönnuð þannig að hægt sé að reka umhverfisvæna leikskólastefnu, börnin geta ræktað matjurtir og endurunnið pappír og annan lífrænan úrgang. Húsið er um 650m2 og er stærsti hluti hússins fjölnotaleikrými, eða um 200m2. Þar sem um einkaframkvæmd er að ræða er leikskólinn í eigu verktakans, Ístaks-Nýsis. Verktakinn byggir og rekur húsið, þ.e. sér u m húsumsjón, búnað, tæki, leiktæki og lóð og greiðir allan kostnað af rekstrinum. Faglegt leikskólastarf og rekstur mötuneytis verður á hendi Grindavíkurbæjar, en sveitarfélagið og Ístak-Nýsir gera með sér leigusamning til 25 ára. Leikskólinn er hannaður af Ormari Þ. Guðmundssyni, arkitekti og Auði Sveinsdóttur, landslagsarkitekti, frá Arkitektastofunni ehf.