Umhverfisvænar blöðrur á næstu Ljósanótt?
Mikil jákvæðni í garð Ljósanætur var áberandi í umræðum um Ljósanótt á fundi sem menningarráð efndi til með íbúum í Reykjanesbæ í síðustu viku og samkomulag um að heildarbygging hátíðarinnar héldi sér.
Menningarráð Reykjanesbæjar lýsir ánægju með fundinn, sem haldin var í Duushúsum 11. febrúar, og þakkar þeim íbúum sem komu og tóku þátt í umræðum. Fjöldi tillagna kom fram og meðal annars má lesa helstu niðurstöður á vef Reykjanesbæjar.
Fjármagn til hátíðarinnar í ár er lægra en áður og m.a. leituðu fundarmenn leiða til sparnaðar en þó ekki þannig að helstu dagskrárliðir s.s. árgangagangan myndu líða fyrir. M.a. var lagt til að á föstudagskvöldinu yrði lágstemmdari dagskrá en verið hefur og enn frekar reynt að höfða til íbúanna sjálfra með framlag.
Menningarráð Reykjanesbæjar leggur til að athugað verði hvort hægt sé að kaupa umhverfisvænar blöðrur til að nota við setninguna.