Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Umhverfisstofnun skilgreini hvenær lykt breytist í ólykt“
Föstudagur 24. febrúar 2017 kl. 18:36

„Umhverfisstofnun skilgreini hvenær lykt breytist í ólykt“

- ljóst að lykt gæti borist frá starfsemi mun fleiri fyrirtækja á svæðinu., segir í athugasemd United Silicon

„Það er vissulega umhugsunarefni að í 16 þúsund manna byggðalagi skuli grunsemdir um uppruna lyktarmengunar eingöngu beinast að rekstri United Silicon þótt ljóst sé að lykt gæti borist frá starfsemi mun fleiri fyrirtækja á svæðinu“. Þetta kemur fram í athugasemd sem United Silicon var að senda frá sér vegna fjölmiðlaumræðu um fyrirtækið síðustu daga.
 
Athugasemd United Silicon er eftirfarandi í heild sinni:
 
Af gefnu tilefni vilja stjórnendur verksmiðju United Silicon í Helguvík benda á að stöðugar mælingar, framkvæmdar af óháðum aðila, hafa verið gerðar á umhverfisáhrifum starfseminnar frá því hún hófst í nóvember síðast liðnum. Hægt er að fylgjast með mælingunum í rauntíma á vefsíðunni andvari.is. Hingað til hafa þessar mælingar ekki sýnt nein marktæk umhverfisáhrif frá verksmiðjunni og þau litlu frávik sem komið hafa fram eru öll langt undir lögboðnum viðmiðunarmörkum.
 
Það er umhugsunarefni að bréf með athugasemdum Umhverfisstofnunar um rekstur verksmiðjunnar fyrr í þessari viku, skuli strax næsta dag hafa verið umfjöllunarefni í fjölmiðlum.  Þetta gerist áður en stjórnendum verksmiðjunnar gafst ráðrúm til að kynna sér efni þess til hlítar og áður en réttur fyrirtækisins til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri rann út. Þetta vekur óhjákvæmilega upp spurningar um eðlilega stjórnsýslu. Við hljótum að gera þá kröfu að Umhverfisstofnun tilgreini á hvaða gögnum stofnunin byggir þá skoðun sína að mengun frá verksmiðju United Silicon sé svo mikið vandamál að ráðast þurfi í verkfræðilega úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar og jafnvel að stöðva reksturinn tímabundið. Þetta eru alvarlegar hótanir sem verður að rökstyðja málefnalega með mælanlegum gögnum.
 
Í umræddu bréfi er einnig vísað til þess að kvartað hafi verið undan lyktarmengun frá verksmiðjunni og er því slegið föstu að meint lykt sé ólykt og þar með mengun í skilningi laga. Án þess að stjórnendur verksmiðjunnar vilji á nokkurn hátt gera lítið úr óþægindum sem lykt getur valdið verður enn og aftur að gera þá kröfu að Umhverfisstofnun skilgreini hvenær lykt breytist í ólykt og þar með í mengun.  Við hvaða skilgreiningar og mælingar er stuðst í þeim efnum?  Þess má geta að forráðamönnum United Silicon er kunnugt um að Umhverfisstofnun hafa einnig borist yfirlýsingar frá íbúum sem segjast enga lykt hafa fundið sem rekja megi til verksmiðju United Silicon.
 
Það er vissulega umhugsunarefni að í 16 þúsund manna byggðalagi skuli grunsemdir um uppruna lyktarmengunar eingöngu beinast að rekstri United Silicon þótt ljóst sé að lykt gæti borist frá starfsemi mun fleiri fyrirtækja á svæðinu. 
 
Ef nýta á óskilgreinda lykt og órökstuddar staðhæfingar um mengun, sem ekki kemur fram á mælum, til að rökstyðja stórfelld inngrip í rekstur iðnfyrirtækja á Íslandi er tímabært að staldra við og hugleiða hvort allrar sanngirni og meðalhófs sé gætt. Til þessa hafa forráðamenn United Silicon átt gott og faglegt samstarf við Umhverfisstofnun og vonum við að svo verði áfram.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024