Fréttir

Umhverfisstofnun afturkalli starfsleyfi Stakksbergs ehf.
Föstudagur 14. desember 2018 kl. 09:33

Umhverfisstofnun afturkalli starfsleyfi Stakksbergs ehf.

Félagasamtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík (ASH) hafa falið Flóka Ásgeirssyni lögmanni hjá Málflutningsstofu Reykjavíkur að óska meðal annars eftir því við Umhverfisstofnun að hún afturkalli starfsleyfi Stakksbergs ehf. sem er dótturfélag Arion banka hf. fyrir rekstri kísilverksmiðju í Helguvík (áður United Silicon).

ASH telja annars vegar að ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins sé ógildanleg og hins vegar að alvarleg tilvik og ítrekuð brot gegn lögum, reglum og ákvæðum starfsleyfisins hafi komið upp á gildistíma þess og að úrbótum hafi ekki verið sinnt. ASH benda á að áður en starfsemin var loks stöðvuð hafði Umhverfisstofnun borist á annað þúsund kvartana vegna lyktarmengunar frá verksmiðjunni þar sem lýst var margvíslegum líkamlegum einkennum af hennar völdum.

Þá telja ASH að annað hvort mat á umhverfisáhrifum byggi á röngum forsendum um fyrirhugaða starfsemi eða þá að hönnun og starfsræksla verksmiðjunnar sé ekki í samræmi við þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar matinu og þar með útgáfu starfsleyfisins. Hvoru tveggja sé um að ræða verulegan annmarka á málsmeðferð til undirbúnings útgáfu starfsleyfisins sem leiðir til þess að ákvörðunin er ógildanleg og þar með afturkallanleg. ASH telja ljóst að stöðvun starfseminnar ein og sér sé ekki til þess fallin að ná því markmiði að tryggja nauðsynlegar úrbætur þannig að frávikin endurtaki sig ekki heldur sé nauðsynlegt að starfsleyfisveitingarferlið sé endurtekið á réttum forsendum. Afturköllun starfsleyfisins sé eina úrræðið sem getur náð því markmiði að tryggja til frambúðar að starfsemi verksmiðjunnar verði í samræmi við lög.

ASH standa fyrir undirskriftarsöfnun íbúa til að efna til bindandi íbúakosningar vegna starfsemi Stakksbergs og Thorsil í Helguvík. Rafrænn undirskriftarlisti er opinn til miðnættis í kvöld 14. desember á síðunni: http://listar.island.is/Stydjum/31. Þá liggja undirskriftarlistar frammi á eftirtöldum stöðum: Kóda, Skartsmiðjunni og Dramalandi Keflavík, Kosti Njarðvík og Sporthúsinu Ásbrú.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

ASH hvetja íbúa Reykjanesbæjar til að leggja undirskriftarsöfnuninni lið og styðja íbúakosningu um þetta mikilvæga mál sem varðar alla íbúa.