Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Umhverfisráðherra vill flytja Náttúrufræðistofnun til Keflavíkurflugvallar
Miðvikudagur 20. september 2006 kl. 17:28

Umhverfisráðherra vill flytja Náttúrufræðistofnun til Keflavíkurflugvallar

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, hefur lýst þeirri skoðun sinni við ríkisstjórn að hún vilji flytja starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands til Keflavíkurflugvallar. Samhliða Náttúrufræðistofnuninni yrði náttúrugripasafn og vísindasafnið einnig flutt til Keflavíkurflugvallar.

Náttúrufræðistofnun býr við þröngan húsakost ásamt náttúrugripasafninu við Hlemm 3 í Reykjavík. Jónína sagðist í samtali við Víkurfréttir hafa rætt ýmsar hugmyndir ásamt Hjálmari Árnasyni, formanni þingflokks Framsóknarflokksins, í kjölfar þeirra tíðinda að Varnarliðið væri að fara. Málefnið væri enn á hugmyndastigi en verið nefnt í ríkisstjórn og fengið jákvæð viðbrögð.

Jónína sagði að það hentaði stofnuninni vel að vera staðsett á Keflavíkurflugvelli. Það væri jákvætt að staðsetja Náttúrufræðistofnun Íslands svo nærri alþjóðaflugvellinum og þau söfn er tilheyra stofnuninni. Söfnunum er í dag enginn sómi sýndur í þröngum húsakosti í Reykjavík. Margir safngripir væru einnig þjóðargersemar sem ætti að gera hærra undir höfði og nefndi Jónína sem dæmi síðasta geirfuglinn.

Jónína sagðist ekki hafa kynnt sér húsnæðismálin á Keflavíkurflugvelli náið en þóttist vita að þar væru byggingar sem myndu henta stofnuninni. Tugir starfsmanna fylgja Náttúrufærðistofnun Íslands og þeim söfnum er  henni fylgja. Náttúrugripasafn Íslands myndi hafa mikið aðdráttarafl við anddyri Íslands, eins og Keflavíkurflugvöllur er oft nefndur. Þannig sér umhverfisráðherra fyrir sér að ferðamönnum sem eiga stutt stopp á Íslandi gefist kostur á að kynna sér náttúru Íslands á flugvallarsvæðinu. Þá þyrfti vísindasafn einnig að vera í návígi við Náttúrufræðistofnun en það safn þarf mikið rými.

Jónína leggur áherslu á að flutningur stofnunarinnar sé ennþá á hugmyndastigi og þær hugmyndir þurfi að móta áfram. Staðsetningin á Keflavíkurflugvelli sé ákjósanleg, þar sem horfa megi á Keflavíkurflugvöll sem hluta af höfuðborgarsvæðinu og því sé í raun ekki verið að flytja ríkisstofnun út á land.

Náttúrufræðistofnun Íslands er ríkisstofnun sem heyrir undir umhverfisráðuneytið. Hún á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1889 þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað. Forstjóri stofnunarinnar er Jón Gunnar Ottósson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024