Umhverfisráðherra ógnar Stöðugleikasáttmálanum
Úrskurðurinn gengur í berhögg við Stöðugleikasáttmálann og setur hann í uppnám. Umhverfisráðherra tefur framkvæmdir svo mánuðum skiptir. Þetta segir í pistli á vef Starfsgreinasambands Íslands, sem Skúli Thoroddsen ritar.
Frá því Stöðugleikasáttmálinn var undirritaður í júní s.l. hefur lítið miðað í að koma verkefnunum af stað. Um það var fjallað hér á síðunni 3. september s.l. og enn er áréttað að sáttmálinn hafi ekki verið undirritaður upp á grín. Fyrir liggur vilji lífeyrissjóðanna til að koma að opinberum verkefnum en það stendur á ákvörðunarvilja stjórnvalda. Ekkert miðar t.d. í samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar um að koma samgöngumiðstöð af stað í borginni og fleira mætti telja. Framkvæmdir eru mikilvægasta lausnin úr efnahagsvandanum.
Allar tafir eru óásættanlegar og því er sýnu verst þegar einstaka ráðherrar þvælast fyrir mikilvægum málum sem þegar eru á borðinu. Það er einmitt það sem umhverfisráðherra virðist svo dapurlega gera með þeirri dæmalausu ákvörðun sinni að fela Skipulagsstofnun að úrskurða að nýju um hvort fram skuli fara sameiginlegt umhverfismat á suðvesturlínu og tengdum virkjunum og öðrum framkvæmdum.
Ráðherra ber því við að einungis sé verið að framfylgja lögum og viðhafa góða stjórnsýslu. Þvílík firra! Færa má lagarök fyrir því að um lögbrot sé að ræða og bótaskyldan verknað gagnvart þeim fyrirtækjum sem hagsmuna eiga að gæta. Auk þess virðist úrskurðurinn ekki hafa neina efnislega þýðingu. Skipulagsstofnun hefur þegar gefið út álit sitt um mat á umhverfisáhrifum suðvesturlínu. Umhverfisráðherra leggur hins vegar sitt af mörkum til vanefnda á Stöðugleikasáttmálanum og setur hann í uppnám.
Ríkisstjórnin skrifaði undir það plagg að greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda s.s. framkvæmda vegna álvers í Helguvík og Straumsvík. Er umhverfisráðherra að nota pólitíska stöðu sína til að hindra undirbúningsvinnu vegna áforma sem tengjast meðalstórum iðnaðarkostum eins og gagnaverum og kísilflöguframleiðslu á Suðurnesjum? Var ríkisstjórnin ekki öll með á nótunum þegar hún lofaði að engar hindranir yrðu í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember n.k. eða er umhverfisráðherrann í einleik? Hvað hefur úrskurðurinn með umhverfisvernd að gera?
Starfsgreinasambandið tekur undir með Samtökum atvinnulífsins og skorar á umhverfisráðherra að afturkalla ólögmætan úrskurð ráðuneytisins frá 29. september um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 25. mars 2009 um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdar við Suðvesturlínur, styrkingar raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, og öðrum framkvæmdum sem tengjast álveri í Helguvík. Úrskurðurinn gengur í berhögg við Stöðugleikasáttmálann, setur hann í uppnám og tefur framkvæmdir svo mánuðum skiptir.