Umhverfisdagar og vorhreinsun í Reykjanesbæ
Umhverfisdagar hófust í Reykjanesbæ í gær og standa til og standa til 15. maí. Á umhverfisdögum eru íbúar og forsvarsmenn fyrirtækja hvattir til að fagna voru og taka til hendinni með hreinsun lóða og umhverfis. Hægt verður að hafa samband við Þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar vegna aðstoðar við að fjarlægja lífrænan úrgang en einnig er hægt að nýta jarðvegslosunarstað bæjarins á Stapa í Innri Njarðvík eða fara með garðaúrgang til Kölku. Hringrás aðstoðar ef fjarlægtja þarf mikið magn af brotajárni og málmum.
Berglind Ásgeirsdóttir garðyrkjufræðingur hjá Þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar segir ánægjulegt að sjá að íbúar hafi byrjað á vorverkunum um leið og sól hækkaði á lofti og því séu margir á veg komnir í vorhreinsuninni. „Ég hvet fólk til þess að nýta sér umhverfisdagna 11. til 15. maí og þá sérstaklega að það hugi að lóðarmörkum sem snúa að gangstéttum og stígum. Það er mikilvægt að gróðurinn skagi ekki út á gangstéttir og stíga.“ Berglind segir vel mega gera vorhreinsun og umhverfisdagana að ánægjulegri fjölskyldusamveru. „Það er upplagt að nota þetta tækifæri til að kenna þeim yngri um mikilvægi umhverfisverndar og hvernig gott er að standa saman þegar kemur að umhverfismálum. Einnig væri gaman ef íbúar og kannski nágrannar tækju sig saman til að sinna almennri hreinsun í sínu hverfi.“
Sími Þjónustmiðstöðvar Reykjanesbæjar er 420-3200, lokað verður á uppstigningardag. Hægt er að nálgast opnunartíma Kölku á heimsíðu sorpeyðingastöðvarinnar, www.kalka.is og hafa má samband við Hringrás í gegnum tölvupóstfangið [email protected] eða í síma 5501900.