Umhverfisdagar í Grindavík um helgina
- gera bæinn snyrtilegan fyrir sumarið og Sjóarann síkáta
„Nú þegar sólin er farin að hækka á lofti, vorið er loksins komið og sumarið handan við hornið, er upplagt að huga að vorverkunum í garðinum. Bæjarhátíð okkar, Sjóarinn síkáti, er líka á næstu grösum og von á mörgum gestum,“ segir á heimasíðu Grindavíkurbæjar.
Blásið verður til Umhverfisdaga frá 15. til 18. maí þar sem allir íbúar Grindavíkur eru hvattir til þátttöku í fegrun og snyrtingu umhverfisins. Endurvinnslustöð Kölku er opin frá 17-19 á föstudag og frá 12-17 á laugardag.
Fjölmargar tegundir úrgangsefna frá heimilum eru undanþegnar gjaldskyldu. Má þar nefna allan garðaúrgang, hjólbarða, málma og heimilissorp í eðlilegu magni.
Fyrir þá bæjarbúa í Grindavík sem eiga þess ekki kost að koma úrgangsefnum til Kölku mun bíll frá HP gámum keyra hring um bæinn mánudagsmorguninn 18. maí klukkan 09:00 og hirða upp úrgangsefni sem komið hefur verið fyrir við lóðamörk. Mikilvægt er að flokka þau efni í járn, timbur og annað. Athugið að garðaúrgangur verður ekki sóttur.