Umhverfisathuganir hafnar í Helguvík
Norðurál hafa farið af stað með umhverfisathuganir vegna hugsanlegs álvers í Helguvík. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, vill þó tala varlega um málið þrátt fyrir að allar athuganir gefa til kynna að þetta sé mögulegt.
Þetta ásamt fleiru kom fram á fundi sem sveitarstjórnarmenn, þingmenn og aðilar sem tengjast atvinnuuppbyggingu áttu með forsvarsmönnum Norðuráls og forsvarsmönnum Akranes kaupstaðar sem haldin var á þriðjudaginn.
Á fundinum ræddi Gísli Gíslason, bæjarstjóri Akranes kaupstaðar, þær gífurlegu breytingar sem hafa átt sér stað á Akranes í kjölfar álversins á Grundartanga. „Akranes væri öðruvísi ef álið væri ekki á Grundartanga,“ sagði Gísli á fundinum.
Atvinnuleysið á Akranesi var um það bil 5% þegar Norðurál fór af stað en er nú aðeins brot úr prósentu og ljóst þykir að með komu álversins dróst verulega úr atvinnuleysinu en Norðurál leggur upp úr því að fá fólk af svæðinu til vinnu hjá fyrirtækinu. Ef bera á saman Norðurál við hugsanlegt álver í Helguvík þá munu fyrirtæki á Suðurnesjum njóta góðs af því á síðasta ári keypti Norðurál þjónustu af um það bil 150 innlendum aðilum þar af eru tæplega helmingur þeirra staðsettir á Vesturlandi.
Árni og Gísli sögðu á fundinum að Reykjanesið væri betur undirbúið undir byggingu álvers en Akranes þar sem svo margir verktakar eru hér á svæðinu. „Mér fannst koma vel fram að það er tiltölulega auðvelt að bæta þessu inn í okkar samfélag,“ sagði Árni í samtali við Víkurfréttir.
Einnig kom fram á fundinum að hugsanlegt álver í Helguvík væri fyrsta álver Century Aluminum sem byggt yrði frá grunni. „Álverið þyrfti að vera 200 til 250 þúsund tonn svo það yrði samkeppnishæft til lengri tíma,“ sagði Ragnar Guðmundsson, fjármálastjóri Norðuráls á fundinum.
Ef fólk heldur það að vinna í álveri sé fyrir láglaunafólk þá hefur það rangt fyrir sér því meðallaun starfsmanna í álverinu á Grundartanga eru 4 milljónir á ári. „Við auglýsum mjög sjaldan eftir starfsmönnum því við höfum nú þegar langa biðlista í störf hjá okkur,“ sagði Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri starfsmanna og umhverfissviðs um álver sem vinnustað, umhverfisvöktun og árangur.
„Fundurinn tókst mjög vel í alla staði en það var mikilvægt að heyra álit Gísla Gíslasonar og forsvarsmanna Akranes kaupstaðar,“ sagði Árni í samtali við Víkurfréttir og bætti því við að á fundinum hafi komið fram hversu mikils virði þetta verkefni er. „Jafnframt kom fram að allar forsendur eru til staðar ásamt því sem að orkan er til staðar hér á Reykjanesinu.“
Hópurinn sem fór á fundinn ætlar sér að hittast aftur eftir mánuð. „Við viljum útvíkka þennan hóp og halda stöðufund eftir u.þ.b. mánuð þar sem farið er yfir stöðuna en við ættum að gera áttað okkur betur á hlutunum þá.“
VF-myndir: Atli Már Gylfason