Umhverfisáhrif tvöföldunar Reykjanesbrautar kynnt
Fyrirhugað er að breikka Reykjanesbraut úr tveimur akreinum í fjórar á um 24 km kafla frá sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps vestur fyrir Seylubraut í Reykjanesbæ.Verkfræðistofan Hönnun hf. hefur unnið mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar fyrir Vegagerðina sem er framkvæmdaraðili verksins. Í matsskýrslunni er að finna lýsingu á framkvæmdasvæði, fyrirhugaðri framkvæmd og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Matsskýrslan er nú í kynningu. Kynningin stendur í 6 vikur, frá 28. nóvember til 9. janúar, en það er jafnframt sá frestur sem almenningi gefst kostur á að skila skriflegum athugasemdum til Skipulagsstofnunar. Á kynningartímanum liggur matsskýrslan frammi á skrifstofu Reykjanesbæjar og Vatnsleysustrandarhrepps sem og á bókasafni Reykjanesbæjar. Vegagerðin mun standa fyrir kynningu á framkvæmdinni með opnu húsi fimmtudaginn 6. desember frá kl. 16.00-19.00 í fundarsal bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12 í Reykjanesbæ. Á staðnum verða fulltrúar frá Vegagerðinni, Hönnun hf. og Skipulagsstofnun.