Umhverfisáhrif Suðvesturlína ásættanleg þegar á heildina er litið
Umhverfisáhrif fyrirhugaðrar styrkingar og endurbyggingar raforkuflutningskerfisins á Suðvesturlandi eru ásættanleg þegar á heildina er litið, að teknu tilliti til ávinnings af línulögninni og þeirra mótvægisaðgerða sem gripið verður til. Þetta er meginniðurstaða frummatsskýrslu Landsnets vegna framkvæmdarinnar sem hefur verið send Skipulagsstofnun til meðferðar. Skýrslan verður kynnt hagsmunaðilum og almenningi á næstu vikum og er athugasemdafrestur til 2. júlí næstkomandi.
Verkefnið, sem fengið hefur vinnuheitið Suðvesturlínur, tekur til meginflutningskerfis raforku frá Hellisheiði að Geithálsi og Hafnarfirði og áfram út á Reykjanes, ásamt tengingu virkjana og orkunotenda við það. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning verkefnisins sem staðið hefur yfir allt frá árinu 2005, enda háspennulínur um suðvesturhluta landsins, í nágrenni helsta þéttbýlissvæðisins, viðkvæmt mál. Framkvæmdin varðar beinlínis 12 sveitarfélög, og þar með meirihluta landsmanna, og hefur mikið verið lagt upp úr góðri samvinnu og samráði við skipulagsyfirvöld, sveitarstjórnir, landeigendur og aðra sem málið varðar við val á línuleiðinni og útfærslu þeirrar framkvæmdar sem lögð er til í frummatsskýrslunni.
Verkefnið í hnotskurn
Meginflutningskerfið á Suðvesturlandi byggist á loftlínum en á nokkrum stöðum er gert ráð fyrir jarðstrengjum við tengingu einstakra virkjana og notenda við kerfið. Í heildina er um að ræða nýbyggingu á u.þ.b. 152 km af loftlínum auk endurnýjunar á um 19 km af línum meginflutningskerfisins. Nýjar tengingar orkunotenda og virkjana við meginflutningskerfið verða alls 35 km af loftlínum og um 54 km af háspennustrengjum í jörðu. Til mótvægis er gert ráð fyrir umfangsmiklu niðurrifi á eldri línum, eða samtals 97 km af loftlínum, þar sem nýju línurnar verða að langmestu leyti byggðar samsíða eldri línum. Tengivirki við Rauðamel verður fjarlægt en ný tengivirki verða reist á Hellisheiði, við Sandskeið, við Hrauntungur sunnan Hafnarfjarðar og á Njarðvíkurheiði.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði skipt niður í fimm áfanga og að þær hefjist sumarið 2010 og standi með hléum til ársin 2017. Framkvæmdakostnaður við fyrstu fjóra áfanga verksins er áætlaður um 27,3 milljarðar króna, á verðlagi í janúar 2009, og mannaflaþörfin er áætluð um 380 ársverk. Ekki liggur fyrir að svo stöddu kostnaðar- og mannaflaáætlun fyrir fimmta áfanga verksins.
Athugasemdafrestur til 2. júlí
Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og hefur EFLA verkfræðistofa stýrt þeirri vinnu undir verkstjórn Landsnets. Frummatsskýrslan er yfir 200 blaðsíður, fyrir utan viðauka og kort. Meðal nýmæla sem bryddað er upp á eru kort sem auðvelda mönnum að sjá í sviphendingu hvort verkefnið eykur eða dregur úr sýnileika línanna á tilteknum svæðum. Jafnframt hefur verið lagt mikið upp úr gerð líkanmynda sem sýna tiltekna staði á línuleiðinni, fyrir og eftir framkvæmdir og auðvelda mönnum þannig að átta sig á sjónrænum áhrifum framkvæmdarinnar.
Frummatsskýrslan hefur nú verið send Skipulagsstofnun til meðferðar og liggur hún frammi til kynningar frá 20. maí til 2. júlí 2009 á skrifstofum eftirtalinna sveitarfélaga: Sveitarfélagsins Ölfuss, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Garðabæjar, Hafnarfjarðarbæjar, Kópavogsbæjar, Seltjarnarnesbæjar, Sveitarfélagsins Álftaness, Reykjanesbæjar, Grindavíkurbæjar, Sveitarfélagsins Voga og Sveitarfélagsins Garðs. Skýrslan er einnig aðgengileg á bæjarbókasafni Ölfuss, bókasafni Mosfellsbæjar, bókasafni Kópavogs, bókasafni Hafnarfjarðar og bókasafni Reykjanesbæjar, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun.
Frummatsskýrslan er jafnframt aðgengileg á vef Landsnets, www.landsnet.is, á vef EFLU verkfræðistofu, www.efla.is, og á sérstakri heimasíðu verkefnisins, www.sudvesturlinur.is. Allir hafa rétt til að kynna sér framkvæmdina og leggja fram athugasemdir sem skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 2. júlí 2009 til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 150 Reykjavík. Þar fást enn fremur nánari upplýsingar um mat á umhverfisáhrifum.
Markmið og forsendur
Markmið Landsnets með verkefninu er að byggja upp raforkuflutningskerfið á Suðvesturlandi til framtíðar svo það geti mætt áformum um orkuflutning á svæðinu, jafnt til atvinnustarfsemi og til almannanota. Núverandi kerfi er nýtt til fulls og mun ekki anna eftirspurn á svæðinu í nánustu framtíð.
Styrking og endurnýjun kerfisins er jafnframt forsenda uppbyggingar af ýmsu tagi í atvinnulífi landshlutans, þar á meðal aukinna umsvifa í orkufrekri atvinnustarfsemi, bæði framleiðslu- og hátækniiðnaði.
www.sudvesturlinur.is