UMFG 75 ára í dag
Ungmennafélag Grindavíkur er 75 ára í dag, 3. febrúar. Sem kunnugt er verður blásið til mikils fagnaðar í íþróttahúsinu næsta laugardagskvöld. Jafnframt verður gefið út myndarlegt afmælisrit UMFG í ritstjórn Kristins Benediktssonar sem kemur út síðar í mánuðinum, ný heimasíða UMFG verður tekin í gagnið í kvöld þegar aðalstjórn UMFG kemur saman ásamt stjórnarmönnum deilda félagsins og forvarnarsjóður verður kynntur. Formaður UMFG er Gunnlaugur Hreinsson.
Íþróttafélag Grindavíkur var stofnað 3. febrúar 1935. Í fyrstu stjórninni sátu Jón Tómasson, Tómas Þorvaldsson, Guðlaugur Magnússon, Hlöðver Einarsson. 1963 var ÍG breytt í Ungmennafélag Grindavíkur. Knattspyrna og körfuknattleikur hafa verið flaggskip UMFG í gegnum tíðina en í dag eru sex deildir starfandi innan félagsins: Knattspyrnudeild, körfuknattleiksdeild, júdódeild, sunddeild, fimleikadeild og taekwondódeild.
Á myndinni eru íþróttamaður og kona Grindavíkur 2009: Þorleifur Ólafsson og Elínborg Ingvarsdóttir.
---