Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Umferðaröryggisáætlanir Sandgerðis og Garðs gefnar út
Þriðjudagur 12. júlí 2016 kl. 13:00

Umferðaröryggisáætlanir Sandgerðis og Garðs gefnar út

Sveitarfélögin Sandgerði og Garður hafa hvort um sig gefið út umferðaröryggisáætlun fyrir árin 2016 til 2020. Sveitarfélögin og Samgöngustofa undirrituðu samning þess efnis að umferðaröryggisáætlun verði gerð fyrir hvort sveitarfélag, en Samgöngustofa hefur á undanförnum árum hvatt sveitarfélög til að gera áætlanir um umferðaröryggi. VSÓ Ráðgjöf aðstoðaði við þetta verkefni. Vinna við gerð áætlananna stóð yfir frá janúar til júlí 2016.

Markmið með gerð umferðaröryggisáætlana er að auka vitund forráðamanna sveitarfélaga og íbúa um umferðaröryggismál. Lagt var mat á núverandi stöðu umferðaröryggismála í sveitarfélögunum, lagðar fram tillögur til úrbóta og þeim forgangsraðað. Áhersla var lögð á að rödd sem flestra heyrðist þannig að hagsmunir allra vegfarendahópa væru teknir með.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikilvægur þáttur var myndun samráðshóps með helstu hagsmunaðilum. Í hópi hvors sveitarfélags fyrir sig voru fulltrúar frá grunnskóla, leikskóla, forvarnarstarfi, Vegagerðinni, Samgöngustofu, Lögreglunni á Suðurnesjum, Strætó Bs, ásamt umhverfis- og tæknifulltrúa sveitarfélaganna og VSÓ Ráðgjöf sem starfaði með hópunum. Umræður á fundum samráðshópa lögðu grunn að gerð áætlananna þar sem staðkunnugir þekkja best hættur í umhverfinu og tóku fulltrúar í samráðshópum þátt í að móta stefnu og markmið áætlananna. Einnig var auglýst eftir ábendingum frá íbúum í Víkurfréttum og á heimasíðum sveitarfélaganna. Áætlanirnar voru einnig teknar til umræðu hjá bæjarráðum og skipulags- og byggingarnefndum Sandgerðis og Garðs.

Áætlað er að umferðaröryggisáætlanirnar verði endurnýjaðar á fjögurra ára fresti. Fram að þeim tíma verði  ábendingum sem berast sveitarfélögunum varðandi umferðaröryggi safnað saman og þær greindar. Jafnframt verði unnið að þeim úrbótum sem lagðar eru fram í þessum umferðaröryggisáætlunum. Tveimur árum eftir útgáfu umferðaröryggisáætlananna er gert ráð fyrir að samráðshóparnir fundi þar sem farið er yfir verkefnastöðu og nýjar ábendingar.

Nálgast má áætlanirnar á heimasíðum sveitarfélaganna.