Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Umferð um Keflavíkurflugvöll nálgast það sama og fyrir heimsfaraldur
Mánudagur 2. maí 2022 kl. 09:33

Umferð um Keflavíkurflugvöll nálgast það sama og fyrir heimsfaraldur

Umferð um Keflavíkurflugvöll fer nú hratt vaxandi eftir mikinn samdrátt sem hófst vegna Covid-19 fyrri hluta árs 2020. Þess má vænta að á komandi mánuðum verði farþegafjöldinn farinn að nálgast farþegafjöldann 2019. „Tveggja ára samdráttarskeið er vonandi á enda,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia í tilkynningu frá Isavia.

Umsvif á Keflavíkurflugvelli hafa farið vaxandi dag frá degi síðustu vikur. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir nýliðinn aprílmánuð var farþegafjöldinn sem fór um Keflavíkurflugvöll 82% af því sem hann var í sama mánuði 2019.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Íslensku flugfélögin Icelandair og Play fjölga ferðum sínum og erlend flugfélög sem buðu upp á flug til og frá Íslandi fyrir heimsfaraldurinn eru aftur mætt til leiks. Í sumar hafa 24 flugfélög boðað Íslandsflug frá 75 áfangastöðum í sumar.

„Endurheimtin er hraðari en maður þorði að vonast eftir og útlitið er gott, ef ekkert óvænt kemur upp á. Auðvitað er það frábært ef farþegafjöldinn verður 80-90% af því sem við höfðum fyrir heimsfaraldur. Þetta eru góð tíðindi fyrir flugvallarsamfélagið allt, íslenska ferðaþjónustu og efnahagslíf landsins,” segir Guðmundur Daði Rúnarsson. Hann segir ánægjulegt að öll flugfélögin sem flugu til Íslands fyrir heimsfaraldur sjá möguleikana sem felast í því að taka þráðinn upp að nýju. Ísland sé og verði eftirsóttur áfangastaður. „Það mætti segja að víðáttan, hreinleikinn og fleiri kostir sem prýða Ísland sem áfangastað hafi fengið aukna athygli nú þegar heimsfaraldrinum er að ljúka. Því má gera ráð fyrir að Ísland haldi sínum hlut og gott betur þegar ferðaheimurinn hefur að fullu tekið við sér aftur.“

Farþegar sem fara um Keflavíkurflugvöll í sumar verða varir við að framkvæmdir standa yfir við stækkun flugstöðvarinnar. Árið 2022 verður eitt stærsta framkvæmdaár í sögu Keflavíkurflugvallar. Með þeim framkvæmdaverkefnum sem nú eru komin í gang og þeim sem ráðist verður í á næstunni erum við að halda áfram í sókn því tækifærin eru mörg þegar kemur að því að fjölga flugtengingum milli Íslands og heimsins. Farþegaupplifun mun batna verulega með 20.000 m2 viðbyggingu til austurs sem er að rísa. Flugstöðin stækkar um 37%, afköst farangurskerfis aukast mjög, fleiri landgangar verða til og rými fyrir verslun og veitingaþjónustu verður meira.