Umfangsmikil kannabisræktun stöðvuð
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði umfangsmikla kannabisræktun fyrr í vikunni þegar gerð var húsleit að fenginni heimild. Hafði ræktuninni verið komið fyrir í þremur tjöldum á háalofti húsnæðis. Í tjöldunum voru tæplega hundrað plöntur á ýmsum ræktunarstigum. Þá fundust kannabisefni í pappakassa á gólfinu svo og plöntur sem hengdar höfðu verið upp til þurrkunar í lofti rýmisins. Efnið sem þannig hafði þegar verið verkað til neyslu vóg tæp þrjú kíló.
Húsráðandi var handtekinn og fluttur á lögreglstöð þar sem hann játaði brotið. Plöntur, efni og tól og tæki vou fjalægð af lögreglu til eyðingar.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann. Einnig er hægt að koma ábendingum á framfæri á Facebook - síðu lögreglunnar á Suðurnesjum: https://www.facebook.com/lss.abending/