Umdeild auglýsing fjarlægð úr flugstöðinni
Íbúar Reykjanesbæjar ósáttir
Vegna óánægju meðal fjölda íbúa Reykjanesbæjar hefur auglýsingaskilti frá veitingastaðnum Joe & juice verið fjarlægt úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Skiltið fór fyrir brjóstið á heimafólki vegna þess að á því stóð að ekkert væri framundan fyrir ferðamenn nema 40 km af hrauni og mosa, og þannig vísað til Reykjanesbrautarinnar. Málið var m.a. til umræðu á Facebook-síðunni Reykjanesbær - gerum góðan bæ betri, þar sem margir voru undrandi á þessum texta og mörgum þótti halla á bæjarfélagið og það sem boðið er upp á þar.
Svo virðist sem þessi gagnrýni á samfélagsmiðlunum hafi komist til skila upp í flugstöð en búið er að fjarlægja textann af skilti veitingastaðarins.