Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Umbrotin 10. nóvember kalla á mun umfangsmeiri vöktun á Reykjanesskaga
Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands, í pontu á íbúafundinum nú síðdegis. VF/Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Þriðjudagur 12. desember 2023 kl. 21:52

Umbrotin 10. nóvember kalla á mun umfangsmeiri vöktun á Reykjanesskaga

Veðurstofan tók þátt í vel sóttum íbúafundi með Grindvíkingum sem haldinn var nú síðdegis í Reykjavík. Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár, fór yfir stöðu mála í jarðhræringunum. Þar endurtók hann það fram hefur komið í fréttum að á meðan land heldur áfram að rísa við Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Einnig fór Benedikt yfir þá vinnu sem hefur farið fram á Veðurstofunni í kjölfar umbrotanna sem áttu sér stað 10. nóvember.

Atburðarrásin og umfang umbrotanna, þegar kvika hljóp frá Svartsengi og myndaði kvikugang sem liggur nú undir Grindavík, hafa gerbreytt forsendum Veðurstofunnar þegar kemur að vöktun Grindavíkur og Svartsengis. Veðurstofan vaktar alhliða náttúrvá allan sólarhringinn alla daga ársins og hefur gert um árabil. Þessi nýjasta atburðarrás á Reykjanesskaga kallar hins vegar á mun umfangsmeiri vöktun þegar kemur að eldgosavá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Veðurstofan hefur átt í stöðugu samtali við okkar ráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Guðlaugur Þór Þórðarsson ráðherra, sem hefur síðustu misseri heimsótt Veðurstofuna nokkrum sinnum, til að meta stöðuna og hvernig við mögulega getum brugðist við auknum áskorunum vegna vöktunar á margskonar náttúruvá“, segir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, á vef stofnunarinnar.

„Nú þegar hefur verið ákveðið að fjölga sérfræðingum á Veðurstofunni til að svara auknum kröfum um vöktun á Reykjanesskaganum. Eins hefur það komið skýrt fram í samtali við ráðherra að í ráðuneyti hans og hjá stjórnvöldum er fullur stuðningur við nauðsynlegar aðgerðir til að mæta auknum kröfum um vöktun jarðhræringanna á Reykjanesskaga, en við erum líklega að fara inn í langvarandi virkt tímabil“, segir Árni.

Árni segir að á Veðurstofunni sé verið að skipuleggja vöktun í ljósi nýrra aðstæðna. Unnið er hratt til að ljúka þeirri vinnu og segir Árni að starfsfólk Veðurstofunnar hafi staðið sig gríðarlega vel undir miklu álagi í langan tíma. „Þetta snýst um það að eiga gott samtal og samvinnu við almannavarnir, lögregluembættið og aðra viðbragðsaðila á svæðinu þannig að áherslur séu réttar og að það ríki traust á milli í samtalinu. Hlutverk Veðurstofunnar með vöktun og hættumati er að skapa forsendur fyrir viðbragðsaðila til að taka ákvarðanir um aðgerðir. Það eru fjölmargir aðrir þættir sem viðbragðsaðilar þurfa að skoða og meta þegar tekin er ákvörðun um hvenær og með hvaða hætti Grindvíkingar geta snúið heim“, segir Árni.