Um hvað var samið í sameinuðu sveitarfélagi?

- Málefnasamningur D- og J-lista í Garði og Sandgerði

Um hvað er málefnasamningur meirihlutasamstarfsins í bæjarstjórn nýs sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis? Málefnasamningurinn var lagður fram og kynntur á fyrsta fundi bæjarstjórnar nú í vikunni.
 
Yfirlýsing um samstarf og áherslur D-lista og J-lista
 
D-listi Sjálfstæðismanna og óháðra og J-listi Jákvæðs samfélags taka höndum saman um það verkefni að stýra sameiginlegu sveitarfélagi Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs kjörtímabilið 2018-2022. Samstarfið mun byggja til jafns á stefnuskrám beggja framboðslista þar sem áhersla verður lögð á að vel takist til við það verkefni að sameina tvö rótgróin samfélög í eitt. Til að það takist verður áhersla lögð á gott samstarf kjörinna fulltrúa, starfsmanna og bæjarbúa. Sérstaklega verður áhersla lögð á eftirtalin atriði um leið og stefnuskrár beggja lista liggja til grundvallar. 
 


Velferðarmál 
 
Unnið verði að því að uppbygging hjúkrunarheimilis komist á dagskrá í sveitarfélaginu með samþættingu við dagdvöl, heimaþjónustu og önnur búsetuúrræði fyrir aldraða í heimabyggð. 
 
Þjónusta við eldri borgara þarf alltaf að vera í þróun þannig að hún verði með besta hætti hverju sinni. Tryggja þarf góða heimaþjónustu og aðgengi eldri borgara að heilsurækt. 
 
Unnið verði að því að íbúar sveitarfélagsins hafi aðgang að heilsugæslu í heimabyggð. Að fólk með fötlun fái stuðning og þjónustu samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda og eigi þess kost að búa á eigin heimili.
 
Fjölmenningarstefna verði unnin fyrir sveitarfélagið. 
 
Jafnréttisstefna verði unnin fyrir sveitarfélagið.


Fræðslumál
 
Áhersla verður lögð á leikskólamál með það að sjónarmiði að plássum fjölgi og ungbarnadeild verði opnuð sem fyrst.
 
Stutt verði við öfluga starfsemi grunnskólanna með því að byggja upp sérfræðiþekkingu innan sveitarfélagsins og að skólastofnanirnar geti þróast og eflst í kennsluaðferðum og almennu skólastarfi. Í starfi skólanna verði sérstaklega litið til þess að nemendahópurinn er fjölþjóðlegur.
 
Samvinna og samlegð verði nýtt til að tryggja öfluga starfsemi tónlistarskóla í báðum byggðarkjörnum.

 
Íþróttir, frístundir og heilsuefling
 
Áfram verður vel stutt við íþrótta- og félagsstarf í sveitarfélaginu og hlúð að starfsemi frjálsra félagasamtaka.
 
Hvatastyrkir verði fyrir börn til 18 ára aldurs og verði hækkaðir á kjörtímabilinu.
 
Bæta þarf aðstöðu til íþróttaiðkunar með nýju fjölnota íþróttahúsi sem gera þarf ráð fyrir í nýju aðalskipulagi og byrja að hanna á kjörtímabilinu.
 
Samgöngur milli byggðakjarna verða efldar og miðaðar að íþrótta- og tómstundaiðju.
 
Styðja og efla ungmennaráð sem er málsvari ungs fólks í sveitarfélaginu.
 
Efla heilsuvernd, forvarnir og fræðslu með markvissum hætti.

 
Skipulagsmál
 
Nýtt aðalskipulag er eitt af stærstu verkefnum nýs sveitarfélags sem leggur grunninn að framtíð þess. Vinna við það mun hefjast strax í upphafi kjörtímabilsins með samtali og samvinnu við samfélagið og stefnt að því að fram fari samkeppni milli fagaðila um hönnun þess.
 
Lagður verður göngu- og hjólreiðastígur á milli byggðakjarnanna á kjörtímabilinu.
 
Ganga frá frárennslismálum til frambúðar í báðum byggðarkjörnum.
 
Unnið verði eftir umferðaröryggisáætlunum sem þegar eru til.
 
Í samstarfi við ríkið þarf að tryggja breikkun vegarins milli byggðakjarnanna og að lokaáfangi Strandgötu verði kláraður.
 
Tryggja þarf að íbúðahúsnæði sé fjölbreytt í sveitarfélaginu og hugað að því við gerð skipulaga og við framboð lóða.
 
Sjá til þess að nægt framboð af lóðum sé fyrir stór sem smá fyrirtæki.

 
Umhverfismál
 
Stuðla að aukinni umhverfisvitund í samstarfi við íbúa, hagsmunasamtök og fyrirtæki.
 
Sveitarfélagið á að vera leiðandi í umhverfismálum og sýna gott fordæmi, m.a. með því að stuðla að aukinni flokkun sorps.
 
Unnin verði umhverfisstefna fyrir sveitarfélagið og starfað samkvæmt henni.
 
Haldið verði áfram að hreinsa standlengjuna í sveitarfélaginu í samstarfi við Bláa herinn og önnur félagasamtök.
 
Unnið verður af krafti að fegrun byggðakjarnanna og aukinni gróðursetningu.

 
Atvinnumál
 
Stærstu tækifærin í atvinnumálum í sveitarfélaginu eru í tengslum við uppbyggingu við Keflavíkurflugvöll. Þá er mikilvægt að nýta betur þau tækifæri sem góð fiskihöfn í nágrenni við alþjóðlegan flugvöll gefur.
 
Skapa þarf aðstæður til að laða að nýsköpunar- og sprotafyrirtæki.
 
Uppbygging ferðaþjónustu verði í samræmi við markmið Reykjanes jarðvangs, Geopark.

 
Menningarmál
 
Rækta og styðja þarf hið fjölbreytta lista-, og menningarlíf sem er þegar til staðar í sveitarfélaginu.
 
Stutt verður áfram við starfsemi Þekkingarseturs Suðurnesja, Náttúrstofu Suðvesturlands og Byggðasafnsins á Garðskaga.
 
Áfram þarf að standa vörð um merkilega sögu byggðakjarnanna m.a. með auknum og bættum merkingum og áframhaldandi endurbótum og uppbyggingu að Útskálum og á Sjólyst.

 
Fjármál og stjórnsýsla
 
Fjármálastjórnun verður ábyrg og fjárfestingar munu taka mið af getu sveitarfélagsins.
 
Álögum á íbúa og fyrirtæki verður haldið í lágmarki í takt við fjárhagsgetu sveitarfélagsins.
 
Stjórnsýslan skal vera opin og gagnsæ og aukin áhersla lögð á að hún verði rafræn.
 
Heimasíða sveitarfélagsins verður virkjuð betur svo íbúar eigi enn betri leið til að koma ábendingum og skoðunum á framfæri.
 
Staða bæjarstjóra verður auglýst og ráðið í hana út frá faglegum forsendum.
 
Það á að vera eftirsóknarvert að starfa fyrir sveitarfélagið og það verður best gert með virkri starfsmannastefnu.
 
Staðinn verður vörður um hagsmuni sveitarfélagsins og íbúa þess gagnvart ríki og öðrum þeim aðilum sem því tengjast og þess gætt að röddin verði sterk og heyrist víða.
 
Hraður vöxtur á Suðurnesjum kallar á að ríkisvaldið komi að borðinu með aukið fjármagn til stofnana og verkefna á Suðurnesjum svo sem löggæslu, framhaldsskóla,heilsugæslu og sjúkraflutninga.