Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Um 500 manns í viðamikilli flugslysaæfingu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 24. október 2021 kl. 12:53

Um 500 manns í viðamikilli flugslysaæfingu

Á fimmta hundraðmanns tóku þátt í umfangsmikilli flugslysaæfingu sem haldin var á Keflavíkurflugvelli í gær. Æfingar á flugvellinum eru stærstu hópslysaæfingar sem haldnar eru á Íslandi. Æfingar af þessu tagi eru afar mikilvægar fyrir heildarviðbragðskerfi Íslands hvort sem um er að ræða flugslys eða önnur hópslys. 

Stór flugslysaæfing er haldin á 3-4 ára fresti á hverjum flugvelli á Íslandi þar sem boðið er upp á áætlunarflug. Æfingar eru tvær til fjórar á ári hverju. Isavia hefur staðið fyrir  um sextíu flugslysaæfingum frá árinu 1996. Undirbúningur fyrir æfingar sem þessa hefst um þremur mánuðum áður en til hennar kemur og er hún unnin í nánu samstarfi við viðbragðsaðila á hverjum stað. Þar á meðal eru starfsmenn flugvallarins, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningsaðilar, starfsfólk sjúkrahúsa, almannavarnir, björgunarsveitir, Rauði krossinn, rannsakendur, flugrekendur og flugafgreiðsluaðilar. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þátttakendur á æfingunni voru á fimmta hundrað í dag, þar af um 150 sjálfboðaliðar sem léku slasaða og aðstandendur. Sett var á svið flugslys þar sem þota brotlenti á flugbraut og endar vestan við hana. Kveikt var í bílflökum sem ætlað var að líkja eftir flugvélabúk til að gera vettvanginn sem raunverulegastan. Sjálfboðaliðar í hlutverki slasaðra voru farðaðir og allt gert til að líkja sem mest eftir raunverulegu slysi. 

„Æfingin gekk afar vel og nú hefst vinna við að rýna viðbrögðin,“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og æfingastjóri. „Það verður farið ítarlega yfir þau atriði sem gengu vel á þessari æfingu og einnig það sem betur mætti fara.“ 

„Æfingarnar eru gríðarlega mikilvægar fyrir okkur hjá Isavia en einnig fyrir viðbragðskerfið í nærsamfélagi við flugvellina,“ segir Friðfinnur Freyr Guðmundsson, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og fulltrúi í æfingastjórn. „Það var einstaklega gaman að sjá hvað allt gekk vel hér í dag og hversu mjög allir viðbragðsaðilar eru viðbúnir ef vá ber að höndum.“ 

„Við viljum þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komu að æfingunni fyrir afskaplega gott samstarf,“ segir Elva. 

Víkurfréttir fylgdust með æfingunni og með fréttinni er myndasafn frá henni.