Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Um 30.000 manns á Ljósanótt
Sunnudagur 4. september 2005 kl. 14:23

Um 30.000 manns á Ljósanótt

Talið er að um 30.000 manns hafi verið við hápunkt Ljósanæturhátíðarinnar 2005 í gær þegar ljósin voru tendruð á Berginu og glæsileg flugeldasýning heillaði alla sem til sáu.

Kemur það fram í tilkynningu frá Ljósanæturnefnd.

Hátíðin hófst á hádegi fimmtudags með því að öll grunnskólabörn í Reykjanesbæ og börn úr leikskólunum slepptu blöðrum til himins. Hátíðinni lauk síðan  í gærkvöldi með skemmtiatriðum á útisviði og flugeldasýningu kl. 22 en tímasetning var ákveðin með tilliti til að öll fjölskyldan gæti notið hennar áður en haldið skyldi heim.
Yfir 200 myndlistarmenn og tónlistarmenn komu að verkefnum í Reykjanesbæ þessa daga.

Lögð var rík áhersla á samstarf löggæslu, starfsmanna Reykjanesbæjar og hjálparsveita til að hindra alvarlega árekstra sem hætta er á við svo mikið margmenni.  Aðilar eru sammála um að þetta samstarf hafi tekist einstaklega vel. Umferð gekk greiðlega og lögð var áhersla á að leysa mál strax áður en þau yrðu að erfiðari verkefnum.
Ekki voru allir unglingar og fullorðnir sáttir við að halda heim á leið eftir kl. 22, enda allir skemmtilstaðir opnir. Lögregla og útideild höfðu því nóg að gera við að hlutast til um heimferðir unglinga, ekki síst þeirra sem komu af höfuðborgarsvæðinu. Lögð var áhersla á að sæist áfengi á unglingum var tafarlaust haft samband við foreldra og þeir beðnir að sækja unglingana.

Talsverð ölvun var eftir miðnætti í gærkvöldi og fram eftir nóttu en nóttin gekk þó stóráfallalaust að mati lögreglu og gæsluliðs.-  Kl. 9 í morgun voru 5 af 6 fangaklefum lögreglu nýttir.

Reykjanesbær, lögregla, hjálparsveitir og sjálfboðahópar vilja þakka  hinum fjölmörgu gestum ljósanætur sem lögðu leið sína um Reykjanesbæ þessa daga fyrir einstaklega góða framkomu. Þótt í nokkrum tilvikum hafi fáeinir einstaklignar reynt að kasta rýrð á hátðíðahöldin með drykkjulátum og óspektum á aðfararnótt sunnudags, tókst að hafa hemil á þeim þannig að einstaklingar  og fjölskyldur skemmtu sér  vel alla helgina.


       Ljósanefnd Reykjanesbæjar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024