Um 150 bifreiðir stöðvaðar
	Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði um 150 bifreiðir á Reykjanesbraut við Innri – Njarðvík í gærkvöld í hefðbundnu umferðareftirliti. Allir ökumenn reyndust hafa sitt á hreinu nema einn sem ók sviptur ökuréttindum.
	Á undanförnum dögum hafa á annan tug ökumanna í umdæminu verið kærðir fyrir of hraðan akstur Sá sem hraðast ók mældist á 151 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Annar ökumaður var grunaður um ölvunarakstur.
	Þá voru skráningarnúmer fjarlægð af sex bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar og tveir óku án ökuréttinda.
				
	
				

 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				