Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Um 1100 manns mættu í kirkju á Menningardag
Mánudagur 25. október 2004 kl. 12:21

Um 1100 manns mættu í kirkju á Menningardag

Menningardagur í kirkjum á Suðurnesjum var haldinn í gær og var fjölbreytileikinn í fyrirrúmi. Dagskráin hófst kl. 10 um morguninn í Kálfatjarnarkirkju og lauk kl. 10 um kvöldið í Grindavíkurkirkju. Þetta var í annað sinn sem Menningardagar eru haldnir en örugglega ekki í það síðasta. Um 1100 manns mættu í kirkjurnar til að sjá menningaruppákomur af öllum gerðum og má þar nefna ljóðalestur, dægurlagasöng og erindi af ýmsum toga.

Þar má nefna fyrirlestur Jóns Böðvarssonar í Njarðvíkurkirkju um Sveinbjörn Egilsson, skáld og Menntaskólarektor. Komst Jón að þeirri niðurstöðu að Sveinbjörn hafi verið mesti málamaður sem Ísland hefur alið og að „Pereatið“ svokallaða hafi verið mikið hneyksli.

Í Ytri-Njarðvíkurkirkju söng Magnús Þór Sigmundsson eigin lög, en í Keflavíkurkirkju flutti Hákon Leifsson erindi um trúarlega tengingu í tónlist keflvískra poppara. Þar steig Rúnar nokkur Júlíusson á stokk sem leynigestur og flutti óð um móður sína sem snerti viðstadda afar djúpt. Hann tók einnig lagið „Elskaðu náungann“ ásamt kór Keflavíkurkirkju.

Í Útskálakirkju sagði sr. Sigurður Sigurðsson, vígslubiskup, frá kynnum sínum af reimleikum á Útskálum þegar hann var þar gestur í æsku. Kirkjukórinn flutti að lokum tvo sálma.

Í Hvalsneskirkju flutti Matthías Johannessen eigin ljóð og texta og kallaðist á við Hallgrím Pétursson með þeim.

Í Kálfatjarnarkirkju hélt Ómar Smári Ármannsson erindi um selin í heiðinni og lífið þar í þúsund ár. Í framhaldinu var þjóðlagasöngur og klassísk verk flutt með miklum ágætum.

Bjarni Arason fyllti svo Kirkjuvogskirkju um kvöldið þar sem hann söng lög sem Vilhjálmur Vilhjálmsson gerði vinsæl. Mannfjöldinn var þvílíkur að einhverjir þurftu að hlýða á fallegan söng Bjarna fyrir utan dyrnar. Það kom ekki að sök því tónleikagestir skemmtu sér allir afar vel.

Menningardegi lauk formlega í Grindavíkurkirkju þar sem um 300 manns mættu. Þar flutti séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir erindi um samspil íþrótta og kirkju og tónlistarfólk úr hópi íþróttamanna, þau Gígja Eyjólfsdóttir og Jón Ágúst Eyjólfsson sungu og léku á gítar.

Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja og einn af aðstandendum menningardagsins sagði að þegar hefðu heyrst áskoranir um að hátíðin yrði haldin í þriðja sinn að ári.
VF-myndir/Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024