Tvöföldun Reykjanesbrautar: Byrjað að malbika seinni áfangann
Fyrstu malbikunarframkvæmdirnar í seinni áfanga við tvöföldun Reykjanesbrautar hófust í morgun við Grindavíkurafleggjara. Verður malbikaður stuttur kafli beggja meginn við afleggjarann og samhliða gerð ný hjáleið sem umferð mun beinast um á næstunni á meðan verktakinn vinnur að frágangi við gatnamótin.
Vegfarendum um Reykjanesbraut er bent á að fara gætilega þegar ekið fram hjá afleggjaranum eins og viðvörunarskilti á vettvangi gefa til kynna.
Framkvæmdir við seinni áfanga ganga vel og bendir allt til þess að þeim muni ljúka mun fyrr en áætlið verklok segja til um. Búast má við auknum krafti í framkvæmdirnar þegar líður fram á næsta ár en Jarðvélar ehf hyggast setja aukinn tækjakost og mannafla í verkið þegar losnar um hann úr öðrum verkum, sem ljúka mun á næstu misserum.
Mynd: Frá Reykjanesbraut í morgun.
VF-mynd: Ellert Grétarsson.