Tvöföld Reykjanesbraut opnar í dag!
Í dag kl. 15 mun samgönguráðherra opna nýjan kafla tvöfaldrar Reykjanesbrautar á Strandarheiði fyrir umferð. Athöfnin fer fram við vesturenda framkvæmdarinnar sem er um 3 km austan afleggjara að Vogum.
Þessi fyrsti áfangi breikkunar Reykjanesbrautar nær frá mörkum Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps og endar um 3 km austan við afleggjarann að Vogum. Nýja brautin er samtals 12,1 km og er þar meðtalin fléttukafli við báða enda.
Með þessari opnun er mikill áfangasigur unninn í áralangri baráttu fyrir tvöfaldri Reykjanesbraut.
Kaflinn sem nær frá mörkum Hafnafjarðar og næstum inn að Vogum er nú tilbúinn og opnar fyrir umferð almennings síðdegis.
Þessi tímamót eiga sér langan aðdraganda þar sem að Reykjanesbrautin hefur í áraraðir verið einn hættulegasti vegkafli landsins. Þar hefur fjöldi fólks á öllum aldri látið lífið og í nokkur ár hefur verið lagt æ harðar að stjórnvöldum að leggja sitt af mörkum til að klára tvöföldunina sem allra fyrst.
Margir frumkvöðlar undirbjuggu jarðveginn og lagði Árni R. Árnason, þingmaður svæðisins m.a. fram fyrstu þingsályktunartillöguna til að koma hreyfingu á málin en samtals hafa sex þingsályktunartillögur verið lagðar fram. Þá hafa fjölmargir þingmenn sem og sveitarstjórnarmenn af svæðinu hvatt stjórnvöld dyggilega til að taka í taumana sem fyrst til að koma í veg fyrir fleiri alvarleg umferðaróhöpp.
Vakning í kjölfar harmleiks
Hræðilegt slys sem átti sér stað í Kúagerði í nóvember árið 2000 varð svo endanlega til þess að fólki var ofboðið. Þar létust þrjár manneskjur af Suðurnesjum í árekstri tveggja bíla og varð öllum ljóst að fljótt þyrfti að taka í taumana ef ekki ætti að fara eins fyrir fleirum.
Þann 11. desember sama ár kom mikill hópur fólks saman og lokaði umferð um Reykjanesbraut til að vekja athygli á málstaðnum og knýja á um tvöföldun. Upp úr því var áhugahópur um örugga Reykjanesbraut stofnaður og hefur hann síðan verið í fararbroddi í baráttunni.
Fyrsta verk hópsins var að standa fyrir tendrun 52 kerta við Kúagerði í lok ársins 2000 sem voru til minningar um þá einstaklinga sem höfðu látist á brautinni frá árinu 1963.
Loforð gefin á borgarafundi
Segja má að vatnaskipti hafi orðið með velheppnuðum borgarafundi sem var haldinn í Stapa þann 11. janúar 2001. Þar komu um 1000 manns saman til fundar með þingmönnum kjördæmisins og samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni, auk fleiri góðra gesta.
Niðurstaða fundarins var sú að þingmenn lýstu yfir pólitískum vilja fyrir því að ráðist yrði í framkvæmdir og þeim yrði lokið sem fyrst. Árni Mathiesen, fyrsti þingmaður kjördæmisins, flutti lokaorð fundarins og sagði þingmenn hafa fengið það verkefni að flýta tvöföldun frá árinu 2006, eins og gert var ráð fyrir þá, til 2004. Hann bætti því við að þeir myndu styðja Sturlu til að það gæti orðið að veruleika.
Í lok fundarins afhenti Steinþór Jónsson, formarður áhugahópsins, Sturlu forláta skóflu að gjöf frá áhugahópnum, krómaða og áritaða, sem skyldi notuð til að taka fyrstu skóflustungu að framkvæmdinni.
Nokkrum dögum síðar afhenti áhugahópurinn ráðherrum samgöngumála og dómsmála bílabæn til að setja í ráðherrabílana, en að auki var þeim dreift í nokkur þúsund eintökum á brautinni. Við það tækifæri afhentu talsmenn áhugahópsins Sturlu undirskriftir 9200 manna og kvenna sem höfðu sett nafn sitt á áskorun til flýtingar framkvæmda.
Áhugahópurinn hefur allt frá upphafi unnið með markvissum hætti að bættri umferðarmenningu á brautinni og hafa þeir staðið fyrir margvíslegum umbótum.
Tilboð 377 milljónum undir áætlun
Í maí 2002 var haldið upp á að framkvæmd við fyrsta kafla tvöföldunar Reykjanesbrautar var loks boðin út. Samgönguráðherra var viðstaddur athöfn í Hótel Keflavík að því tilefni og tók fyrstu „skóflustunguna“ í Reykjanesbrautar-tertu með agnarsmárri skóflu sem hann fékk síðar afhenta til eignar.
Tilboð í verkið voru opnuð í byrjun nóvember og var gengið að sameiginlegu tilboði Eyktar, Jarðvéla og Háfells sem hljóðaði upp á 616 milljónir, eða 377 milljónum undir upprunalegri kostnaðaráætlun.
Stóri dagurinn var svo 11. janúar 2003, nákvæmlega tveimur árum eftir borgarafundinn í Stapa. Samgönguráðherra tók fyrstu skóflustunguna að breikkun Reykjanesbrautar og notaði til þess skófluna góðu sem hann fékk afhenta á borgarafundinum.
Skóflan, ásamt myndum úr baráttunni, er nú til sýnis í Sparisjóðnum í Keflavik.
Síðan þá hafa framkvæmdirnar gengið afar hratt fyrir sig og eru, þrátt fyrir að bætt hafi verið við þennan fyrri áfanga, á undan áætlun. Opnun tvöfaldrar Reykjanesbrautar er stór áfangi í sögu svæðisins og mun vafalaust stuðla að fækkun slysa í umferðinni og bjarga mörgum mannslífum. Nú ríður á að klára það verk sem hafið er og hefja vinnu við seinni hluta framkvæmdarinnar sem allra fyrst.