Tvö útköll nær samtímis í Innri Njarðvík
Það hefur verið nóg að gera hjá starfsmönnum Brunavarna Suðurnesja síðustu mínúturnar. Tvö útköll bárust úr Innri Njarðvík með nokkurra mínútna millibili nú áðan.
Fyrst var óskað eftir slökkviliði að verksmiðju Kaffitárs, þar sem glóð var við stromp frá kaffibrennsluofni.
Þegar slökkviliðsmenn Brunavarna Suðurnesja höfðu slökkt í glóðinni barst útkall frá Akurskóla. Þar hafði nemandi fengið krampakast. Þar sem slökkviliðsmennirnir eru einnig þjálfaðir sjúkraflutningamenn fóru þeir á tækjabíl slökkviliðsins í Akurskóla og undirbjuggu nemandann fyrir sjúkraflutning en sjúkrabíll var kominn á vettvang skömmu síðar.
Meðfylgjandi myndi var tekin fyrir utan Akurskóla nú áðan.