Tvö tonn af rusli á tveimur tímum í Mölvík - myndskeið
Hópur fólks hreinsaði um tvö tonn af rusli úr Mölvík á Reykjanesi á tveimur tímum síðdegis í gær. Sundhópurinn Marglyttunar í samstarfi við Bláa herinn stóð fyrir hreinsun Mölvíkur. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók þátt í verkefninu.
Marglytturnar munu synda boðsund yfir Ermarsundið í byrjun september til að vekja athygli á plastmengun í hafi og safna um leið áheitum fyrir Bláa herinn sem hefur staðið að strandhreinsunum, hvatningu og vitundarvakningu í 24 ár.
Blái herinn stóð fyrir hreinsun á sama stað fyrir fjórum árum þar sem allt plast og veiðafærarusl var hreinsað úr fjörunni og af ströndinni í Mölvík. Tómas Knútsson, foringi Bláa hersins, sagði í samtali við Víkurfréttir að það hafi komið honum á óvart hversu mikið af rusli væri aftur komið í fjöruna og upp á ströndina.
Á svæðinu var þó ekki bara plast og veiðarfæri, því þar var einnig mikið rusl eins og leirdúfur og haglabyssuskot.
Blái herinn hefur staðið fyrir strandhreinsun í næstum aldarfjórðung. Samkvæmt gögnum hersins þá eru að jafnaði að koma eitt tonn af rusli á hvern kílómetra strandlengjunnar.