Tvö þúsund störf tengd fluginu - 20% allra starfa á Suðurnesjum
Um tvö þúsund manns starfa við flugtengda starfsemi í eða við flugstöðina og má því áætla að það sé um fimmtungur allra starfa á Suðurnesjum. Um 80-90% þessara starfsmanna eru búsettir á Suðurnesjum.
Stærstu vinnuveitendurnir á flugvallarsvæðinu eru Isavia og dótturfélagið Fríhöfnin með um 500 manns og IGS flugþjónustan sem er með svipaðan fjölda að meðaltali yfir árið. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia segir að flugstöð Leifs Eiríkssonar sé vissulega stóriðja Suðurnesja en það sé líka gott fyrir aðila í flugstöðinni að hafa starfsfólk sem sé búsett á Suðurnesjum.
Í könnun sem Hagfræðistofnun kynnti vorið 2010 kemur fram að 15-20% af störfum á Suðurnesjum tengist flugstöðinni árin 2004-2005, beint eða óbeint. Síðan hafa umsvif vaxið í og við flugstöðina með auknum farþegafjölda. Farþegafjöldi jókst á þessu ári um 18% og gert er ráð fyrir 7,5% aukningu á árinu 2012 og frekari aukningu næstu ár.
Það eina sem skyggir á þessar góðu tölur fyrir Suðurnesjamenn er að meirihluti yfirmanna í og við flugstöðina er ekki búsettur á Suðurnesjum. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia segir að mikið vanti upp á að umsóknir í störf yfirmanna eða stjórnenda hjá fyrirtækinu séu frá fólki sem sé búsett á Suðurnesjum. Þá hefur ekki gengið vel að draga Suðurnesjamenn sem hafa flutt af svæðinu, m.a. vegna atvinnu og hafa meiri menntun, suður með sjó á nýjan leik. Þó eru nokkur dæmi um það. Björn Óli segir það eftirsóknarvert fyrir Isavia að fá fólk sem sé búsett á Suðurnesjum til starfa en langstærsti hluti starfsmanna Isavia er búsettur þar.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur m.a. fram að þegar atvinnuskipting á Suðurnesjum er borin saman við skiptingu í öðrum landshlutum eru það því einkum tvær atvinnugreinar sem standa upp úr þar, samgöngur og verslunarrekstur.
Árið 2005 var hlutur þessara tveggja greina í vinnuafli um 8-9% meiri en annars staðar á landsbyggðinni. Þrem árum síðar var hlutur þessara tveggja greina í samanlögðum launagreiðslum allra atvinnuvega 12% meiri en annars staðar utan höfuðborgarsvæðisins.
Freistandi er að þakka hvort tveggja flugvellinum að miklu leyti. Nálægð við höfuðborgina kann þó að valda nokkru. Þá veldur flugvöllurinn að líkindum nokkru um umsvif í fleiri atvinnugreinum á Suðurnesjum, þótt þær virðist ekki stærri en annars staðar á landsbyggðinni.
Ekki má heldur gleyma því að óbein áhrif flugvallarins á byggðina eru nokkur. Mikilvægast er sennilega að Reykjanesbrautin er tvöföld og upplýst og því greiðari en flestir vegir hér á landi.
Þjónusta á höfuðborgarsvæðinu er því nærri og betra að eiga heima á Suðurnesjum en ella væri. Nákvæmar mælingar skortir á því hve margir sækja vinnu um Reykjanesbrautina á degi hverjum, en ekki kæmi á óvart að þeir skiptu þúsundum.
Þegar öllu er á botninn hvolft er þó ljóst að Keflavíkurflugvöllur er stóriðja Suðurnesjamanna eins og oft hefur verið sagt.