Tvö innbrot með grjóthnullungum
Lögreglunni á Suðurnesjum var í vikunni tilkynnt um innbrot og þjófnaði í umdæminu þar sem grjóthnullungar komu við sögu.
Í fyrra tilvikinu var brotist inn í fyrirtæki í Njarðvík. Farið var um hurð í afgreiðslu með því að brjóta í henni rúðu og lá steinn við hurðina. Hinn óboðni gestur, eða gestir, fór í sjóðsvél fyrirtækisins og var stolið þaðan allnokkrum fjármunum.
Í hinu tilvikinu var rúða brotin í fyrirtæki í Keflavík. Fyrir innan hana fannst grjóthnullungur. Munir sem höfðu verið í útstillingarglugga fyrirtækisins reyndust vera horfnir þegar að var gáð. Meðal annars var um að ræða vefmyndavél. Verðmæti þýfisins nemur tæplega hundrað þúsund krónum.