Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tvö fjölbýli með 35 íbúðum við Bolafót
Föstudagur 24. febrúar 2023 kl. 15:24

Tvö fjölbýli með 35 íbúðum við Bolafót

Tillaga að deiliskipulagi fyrir Bolafót 21, 23 og 25 í Njarðvík hefur verið lögð fram. Þar er lagt til að lóðirnar verði sameinaðar í eina. Á lóðina komi tvö þriggja til fjögurra hæða fjölbýlishús. Íbúðafjöldi verði allt að 35, nýtingarhlutfall 0,51 og bílastæði á lóð verði 54, með hlutfallið 1,5 á íbúð. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur veitt heimild til að auglýsa deiliskipulagstillöguna.

Í greinargerð aðalskipulags Reykjanesbæjar kemur m.a. fram sú stefnumörkun bæjaryfirvalda að svæðið verði endurskipulagt með íbúðarhúsnæði í huga í bland við atvinnustarfsemi. Byggingar á svæðinu geti verið þriggja til fimm hæða með mögulegri atvinnustarfsemi á neðri hæðum. Fram kemur að vanda skuli ásýnd, hönnun og frágang á svæðinu vegna nándar við nærliggjandi íbúðarbyggð. Einnig skal huga að hljóðvist vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll en deiliskipulagssvæðið er í fluglínu austur–vestur flugbrautar vallarins, í um 1,8 km fjarlægð frá brautarendanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Með breytingu á deiliskipulagi við Bolafót er verið að auka við íbúðarbyggð á svæðinu og um leið að styðja við þá byggð sem fyrir er, eins og í miðbænum. Þannig er verið að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu svæðisins sem og styrkja innviði og grunnkerfi bæjarhlutans. Með nýbyggingum við Bolafót er verið að bæta ásýnd svæðisins og um leið hverfisbraginn, svo og gefa fleirum tækifæri til að búa á góðum stað og það miðsvæðis. Vel hönnuð og glæsileg fjölbýlishús munu jafnframt styrkja bæjarmynd Reykjanesbæjar. Ósnortin náttúra er í næsta nágrenni sem býður upp á fjölbreytta möguleika til útivistar á svæðinu,“ segir í tillögunni.