Tvíburar rufu 3000 íbúa múrinn í Grindavík
– íbúar Grindavíkur orðnir 3001
Tvíburar sem komu í heiminn í gær komast í sögubækurnar í Grindavík fyrir rjúfa 3000 íbúa múrinn í Grindavík. Tvíburarnir eru drengir sem þurfa að vera á Landspítalanum fram yfir aðra helgi. Þeir eru í hitakassa og þurfa smá aðstoð við öndun. Þeir voru teknir með keisara aðfaranótt 8. janúar kl. 02:20.
Foreldrar drengjanna eru Sigrún Ísdal Guðmundsdóttir og Steinar Nói Kjartansson. Tvíburarnir eru þeirra fyrstu börn.
Sigrún sagði í samtali við Víkurfréttir vera í skýjunum með drengina, sem reyndar hafi verið að flýta sér í heiminn.
Nokkur stærðarmunur er á þeim bræðrum. Annar þeirra er 2896 grömm en hinn er 1976 grömm.
Sigrún hefur fengið staðfest að drengirnir eru íbúar í Grindavík númer 3000 og 3001. Drengirnir munu fá sérstaka móttöku bæjaryfirvalda þegar þeir koma heim af fæðingardeildinni.