Tveir sviptir ökuleyfum
- Óku of hratt við Holtaskóla
Lögreglan á Suðurnesjum svipti í gær tvo ökumenn ökuleyfi til bráðabirgða eftir að þeir höfðu orðið uppvísir að því að aka of hratt við Holtaskóla á Skólavegi. Þeir mældust á 75 og 66 km hraða í nágrenni við skólann þar sem hámarkshraði er 30 km á klukkustund. Hraðamælingarnar fóru fram um það leyti er skóladeginum var að ljúka.
Lögreglan á Suðurnesjum er nú með sérstakt umferðareftirlit við alla grunnskóla í umdæminu en við nær alla þeirra er 30 kílómetra hámarkshraði.