Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tveir svartir svanir á Fitjatjörn
Sunnudagur 1. apríl 2007 kl. 11:54

Tveir svartir svanir á Fitjatjörn

Tveir svartir svanir hafast nú við á tjörninni við Fitjar en fyrst varð vart við þá á föstudaginn. Nú í vikunni sást svartsvanur við Hofsárbrú í Vopnafirði en sést hefur til svartra svana  á nokkrum stöðum síðan í fyrrahaust, meðal annars á Mýrum í Lóni.

Svartsvanir lifa í Ástralíu en hafa verið fluttir til Bretlandseyja. Þar hafa þeir sloppið út í náttúruna og eru fuglarnir sem hér hafa sést að öllum líkindum þaðan komnir.

Það var Ari Gunnar Snæbjörnsson, íbúi í Ásahverfi, sem lét okkur á Víkurfréttum vita af fuglunum í morgun en Ari varð  fyrst var við þá á síðdegis á föstudag.
„Mér fannst þetta eitthvað einkennileg sjón en var ekki með nógu öflugan sjónauka til að fullvissa mig um hvað þetta væri. Ég varð forvitinn og fór niður að tjörninni en þá voru þeir horfnir. Ég hef síðan þá verið að fylgjast með tjörninni og í morgun sá ég að þeir voru komnir aftur. Þeir kunna greinilega vel við sig þarna og sýna ekki á sér fararsnið,“ sagði Ari Gunnar í samtali við VF í morgun.

Að sögn Guðjóns H. Walterssonar, fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, hefur ekki sést til tveggja svartsvana áður hér á landi svo vitað sé. Þeir sem sést hafi hingað til hafi verið flækingar einir á ferð. „Það er því allt eins líklegt að hér sé par á ferðinni og þá er ekki loku fyrir það skotið að þau séu sest að þarna á Fitjum og ætli sér að koma upp ungum,.Við munum fylgjast náið með því,“ sagði Guðjón í samtali við VF í morgun.

Guðjón segir að svarti liturinn stafi af litarefinu melanín í fjöðrunum. Alhvítir svanir séu án þessa litarefnis í fiðrinu. „Engir svanir eru þó alsvartir. Í Suður-Ameríku er svanstegund sem er svört um höfuð og háls en hvít að öðru leyti. Ástralski svanurinn, sem hér er á ferð, er svartur um höfuð, háls og bol en vængirnar eru þó hvítir. Sennilegast þykir að báðar þessar tegundir séu komnar af hvítum svanategundum,“ sagði Guðjón.

Myndir:
Ellert Grétarsson tók þessar myndir við Fitjatjarnir í morgun. Svartsvanirnir spóka sig hinir rólegustu innan um hvíta ættingja sína og virðast hinir gæfustu.

 

 

 

 

 

 

 

 

.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024