Tveir Suðurnesjamenn meðal framúrskarandi Íslendinga
Junior Chambers á Íslandi standa árlega fyrir vali á framúrskarandi einstaklingum á Íslandi. Nú er svo komið að tíu manna hópur hefur verið valinn en í honum leynast tveir Suðurnesjamenn. Það eru þau Guðmundur Stefán Gunnarsson og Fida Muhammad Abu Libdeh. Alls bárust dómnefnd á þriðja hundrað tilnefningar en af þessum tíu hefur dómnefnd jafnframt valið fjóra verðlaunahafa. Það verður spennandi að fylgjast með því hvaða einstaklinga hljóta verðlaunin í ár en forsetinn mun afhenda þau fimmtudaginn 6. júní næstkomandi.
Í umsögn um þau Gunnar og Fidu segir m.a.:
Fida Muhammad Abu Libdeh
Flokkur 9. Einstaklingssigrar og/eða afrek.
Fida fluttist til Íslands 16 ára gömul sem flóttamaður frá Palestínu ásamt móður og systkinum. Hún þá hóf nám í framhaldsskóla en flosnaði upp úr námi þar sem hún fékk ekki nægan stuðning enda fór námið fram á Íslensku.Hún var ósátt við að hverfa úr námi en var ákveðin að mennta sig. Meðfram vinnu, reka sitt eigið fyrirtæki og stofna fjölskyldu, fór hún í dag- og kvöldskóla í Íslenskukennslu. Í framhaldinu náði hún sér í stúdentsgráðu og þá Bsc gráðu frá HÍ í umhverfis og orkutæknifræði.
Árið 2012 stofnaði Fida fyrirtækið GeoSilica og er framkvæmdastjóri þess en fyrirtækið hefur meðal annars hlotið styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís, fengið viðurkenningu og nýsköpunarstyrk Landsbankans auk þess sem það var í úrslitum um Gulleggið árið 2013.
Guðmundur Stefán Gunnarsson
Flokkur 7. Störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála.
Guðmundur Stefán er íþróttakennari og júdókennari í Reykjanesbæ. Hann stofnaði júdódeild sem er í dag stærsta júdófélag á Íslandi og er sérstök fyrir þær sakir að hún hefur eingöngu verið rekin í sjálfboðastarfi og nemendur greiða engin iðkendagjöld. Deildin á fjölda Íslandsmeistara og hefur Guðmundur hjálpað mörgum ungum iðkendum sem eiga ekki í önnur hús að venda, að fóta sig í íþróttinni og hefur hjálpað þeim að tileinka sér betri lífsstíl.