Tveir slasaðir eftir bílveltu við hringtorg í smíðum
Tveir menn slösuðust þegar bifreið valt við gatnamót Grænásvegar og Reykjanesbrautar í Reykjanesbæ um áttaleytið í kvöld. Bifreiðin valt þar sem nú er unnið að því að útbúa hringtorg.
Báðir mennirnir sem slösuðust voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og svo annar þeirra áfram á Landsspítalann í Reykjavík. Beita þurfti klippum til að ná öðrum manninum úr flaki bílsins, en bíllinn var mjög illa farinn eftir slysið.
Tveir sjúkrabílar fóru í útkallið frá Brunavörnum Suðurnesja, auk tækjabíls og sveit lögreglumanna frá Lögreglunni á Suðurnesjum. Á sama tíma og slysið varð við Grænás kom annað útkall á sjúkrabíl, þannig að allir sjúkrabílar BS voru í verkefnum á sama tíma, auk slökkviliðsmanna á tækjabíl.