Tveir óku undir áhrifum fíkniefna
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í gær akstur rúmlega tvítugs karlmanns, sem ók undir áhrifum kannabis og amfetamíns, að því er sýnatökur á lögreglustöð staðfestu. Áður höfðu lögreglumenn stöðvað bifreið, sem í voru tveir menn, ökumaður og farþegi. Ökumaðurinn hafði neytt amfetamíns, metamfetamíns og kannabisefna. Þá fannst kannabis við leit í bifreiðinni, auk poka með amfetamínleifum. Farþeginn viðurkenndi svo vörslur á amfetamíni á heimili sínu.