Tveir nýir framkvæmdastjórar hjá Isavia
Tveir nýir framkvæmdastjórar hafa verið ráðnir til starfa hjá Isavia, þær Anna Björk Bjarnadóttir sem hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra þjónustu- og rekstrarsviðs og Ragnheiður Hauksdóttir sem hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra stafrænnar þróunar og upplýsingatækni. Þær taka báðar sæti í framkvæmdastjórn Isavia ohf.
Anna Björk hefur víðtæka reynslu úr viðskiptalífinu og áralanga stjórnunarreynslu. Nú síðast var hún framkvæmdastjóri ráðgjafar og sérlausna hjá Advania. Áður starfaði hún í átta ár hjá Símanum, þar af sat hún fimm ár í framkvæmdastjórn. Þá hefur hún einnig leitt ráðgjafarfyrirtækið Expectus og gegndi þar hlutverki framkvæmdastjóra. Anna Björk hefur einnig setið í stjórnum fjölmargra félaga og samtaka þar á meðal hjá Festu, Sensa og Viðskiptaráði Íslands
Anna Björk tekur við nýju þjónustu- og rekstrarsviði Isavia á Keflavíkurflugvelli sem annast daglegan rekstur Keflavíkurflugvallar. Hún hóf störf mánudaginn 10. febrúar.
Ragnheiður hefur yfir tíu ára starfsreynslu sem stjórnandi hjá Vodafone, síðast sem framkvæmdastjóri einstaklingssviðs. Hún hefur komið að mörgum ólíkum verkefnum innan Vodafone allt frá tæknilegum rekstri til sölu og þjónustu. Ragnheiður hefur einnig setið í stjórn Vertonets, hagsmunasamtaka kvenna í upplýsingatækni, og í fagráði Tækniþróunarsjóðs. Ragnheiður er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og Copenhagen Business School þar sem sérsvið hennar var markaðsfræði og alþjóðaviðskipti.
Ragnheiður tekur við nýju stoðsviði Isavia sem er stofnað til að annast stafræna þróun og rekstur upplýsingatækni hjá félaginu. Það fer með ábyrgð á rekstri upplýsingatækni hjá Isavia, annast stafræna þróun og nýsköpun og leiðir stefnumörkun félagsins í stafrænni umbreytingu.
Ragnheiður hóf störf miðvikudaginn 5. febrúar síðastliðinn.
„Við hjá Isavia fögnum því að hafa fengið afar öfluga og þrautreynda stjórnendur til starfa hjá félaginu,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Við bjóðum Önnu Björk og Ragnheiði hjartanlega velkomnar til starfa. Þeirra bíða spennandi verkefni.“