Fréttir

Tveir menn sluppu ómeiddir þegar bifreið þeirra endaði út í sjó
Það fiskast ýmislegt við höfnina
Fimmtudagur 16. júlí 2015 kl. 11:01

Tveir menn sluppu ómeiddir þegar bifreið þeirra endaði út í sjó

Ævintýri ungs manns við smábátahöfnina í Grófinni í Keflavík endaði illa í gærkvöldi þegar hann missti stjórn á BMW bíl sínum sem endaði út í sjó. Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurnesjum sagðist ungi maðurinn hafa misst stjórn á bíl sínum þegar bensíngjöfin festist í botni og við það fór bifreiðin á mikilli ferð upp á gangstétt, þaðan upp á og yfir grjótgarð og endaði svo á kafi út í sjó.

Tveir ungir menn voru í bifreiðinni og komust þeir báðir út, ómeiddir en báðir blautir og kaldir. Eitthvað mun þó hafa gengið á áður en bifreiðin endaði út í sjó því að þó nokkuð var um spólför á bifreiðastæðunum við smábátahöfnina sem og hemlaför. Bifreiðin var svo hífð upp úr sjónum með kranabíl og verður sennilega ekki upp á marga fiska, alla vega ekki alveg á næstunni.
 

Public deli
Public deli