Tveimur mönnum bjargað eftir að bátur þeirra sökk undan Vogastapa
Björgunarskip og bátar Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Sandgerði, Reykjanesbæ og Vogum voru kallaðir út rétt fyrir klukkan 11 í morgun þegar tilkynnt var um tvo menn í sjónum um 500 m frá landi við Vogastapa. Mennirnir höfðu verið á sjó á 4 metra plastbáti og fengu yfir sig fyllu og sökk bátur þeirra í kjölfarið. Mennirnir voru í þurrbúningum og gátu haft samband við Neyðarlínu í gegnum farsíma.
Björgunarbáturinn Njörður frá Björgunarsveitinni Suðurnes kom fyrstur að mönnunum um 15 mínútum eftir að útkall barst og náði mönnunum úr sjónum, heilum á húfi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð ú tog kom hún á staðinn á sama augnabliki og björgunarsveitarmenn náðu mönnunum úr sjónum. Þá voru lögreglumenn á Sómabáti á staðnum.
Farið var með mennina að Skipasmíðastöð Njarðvíkur, þar sem sjúkrabíll beið þeirra og fór með þá á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til athugunar. Að sögn björgunarsveitarmanna voru þeir sem lentu í sjónum mjög vel búnir og áttu hrós skilið fyrir það.
Lögreglan hófst handa við að draga sokkinn bátinn, sem marraði í kafi, í land. Síðar kom þjónustubátur kafara á staðinn og kom bátnum að bryggju í Keflavíkurhöfn.
Meðfylgjandi myndir voru teknar ofan af Vogastapa þegar björgunaraðgerðir stóðu sem hæst. Þyrlan, TF-LÍF, flýgur yfir slysstaðnum.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson