Fréttir

Tveggja til fjögurra vikna bið eftir tíma hjá lækni
Föstudagur 28. október 2016 kl. 06:00

Tveggja til fjögurra vikna bið eftir tíma hjá lækni

Tvær til fjórar vikur getur tekið að bíða eftir bókuðum tíma hjá lækni á dagtíma á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ þegar álagið er hvað mest. Um þessar mundir er biðtíminn um tvær vikur en eftir símatíma ein vika. Að sögn Halldórs Jónssonar, forstjóra HSS, er biðtíminn töluvert breytilegur og fer eftir því hvernig mönnun er á hverjum tíma og eftirspurn eftir þjónustu. Biðtíminn var stuttur síðasta sumar á HSS í Reykjanesbæ og er almennt stuttur í Grindavík.

Halldór segir haustin yfirleitt vera álagstíma á HSS. „Um mánaðamótin ágúst/september hættir sumarstarfsfólk, þar á meðal læknar og læknanemar, sem leiðir af sér einhverja fækkun. Auk þess eru alltaf einhverjar hreyfingar á læknum og/eða lengri leyfi. Þannig hefur það verið og því færri læknar við störf en verið hefur. Almennur skortur er á læknum og framboð því minna en eftirspurn,“ segir Halldór. Þá þurfa sérnámslæknar á HSS að taka hluta af sínu námi á Landspítala og eru því fjarverandi frá námi og störfum á HSS þann tíma. Það á við um einn sérnámslækni á HSS um þessar mundir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Boðið er upp á tíu mínútna hraðtíma á dagtíma á HSS í Reykjanesbæ sem bókað er í samdægurs. Að sögn Halldórs eru þeir tímar í boði flesta virka daga ársins. Þá er síðdegisvakt á virkum dögum og um helgar en þar er gert ráð fyrir um það bil tíu mínútna tímum sem ekki er bókað í fyrirfram. Þeir tímar kosta 1.900 krónum meira en bókaður tími, sé miðað við almennt verð.

Auk þess að bjóða upp á heilbrigðisþjónustu í Reykjanesbæ og Grindavík er opið einu sinni í viku hjá HSS í Vogum. Að þjónustu HSS koma ýmsar fagstéttir, svo sem læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, sálfræðingar, sjúkraliðar, geislafræðingar, lífeindafræðingar og fleiri. Bráðamóttaka á HSS Reykjanesbæ er opin alla daga fyrir bráðatilfelli. Halldór segir alltaf verið að leita leiða til að tryggja næga mönnun og styrkja þannig þjónustuna. „Það er hins vegar verkefni sem á sér engan endi og viðleitni okkar og vinna heldur því áfram með það að leiðarljósi að styrkja og bæta þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja við íbúa svæðisins.“