Tveggja milljarða hitaveitugull frá Grindavík í Sparisjóðinn
Grindavíkurkaupstaður færði í gær 2 milljarða króna inn á reikning í Sparisjóðnum í Keflavík en bæjarfélagið hefur verið með um 4 milljarða inn á innlánsreikningi í Landsbankanum eftir sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja fyrr á árinu.
|„Það er komið hitaveitugull í Sparisjóðinn,“ sagði Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri í Grindavík í samtali við Víkurfréttir. Aðspurð um hina tvo milljarðana sagðist hún ekki geta svarað því strax.
Undanfarið hafa staðið yfir björgunaraðgerðir vegna Sparisjóðsins í Keflavík sem stendur tæpt í ölduróti bankahörmunga. Meðal þátttakenda í þessari björgunaraðgerð eru Reykjanesbær, Grindavíkurbær, lífeyrissjóðir og fleiri aðilar. Í síðustu viku gaf Reykjanesbær út skuldabréf upp á 2,5 milljarða króna og var andvirðið lagt inn í Sparisjóðinn. Geirmundur Kristinsson, Sparisjóðsstjóri fagnaði þessari ákvörðun Grindvíkinga og sagði að margir fleiri aðilar hafi lagt sitt á vogarskálarnar að undanförnu til að styrkja rekstur Spkef.