Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tvær þjónustubyggingar við vitann á teikniborðinu
Gréta Súsanna Fjeldsted hyggst byggja húsnæði með þjónustu fyrir ferðamenn við Reykjanesvita.
Föstudagur 18. mars 2016 kl. 06:00

Tvær þjónustubyggingar við vitann á teikniborðinu

Það er annað hvort í ökkla eða eyra við Reykjanesvita. Þar hefur ferðamönnum fjölgað mikið en þjónustu, eins og salernisaðstöðu hefur vantað. Nú lítur út fyrir að tveir þjónustuskálar fyrir ferðamenn rísi þar á næstu misserum. Reykjanes Geopark auglýsti í febrúar síðastliðnum eftir áhugasömum aðilum til að hefja uppbyggingu þjónustumiðstöðvar við Reykjanesvita og bárust fjórar umsóknir. Ekki hefur verið tilkynnt hvaða tillaga verði valin. Hugmyndin er að reisa allt að 400 fm byggingu á lóð á milli Reykjanesvita og Valahnúks, sem hýsa mun upplýsingamiðstöð, veitingasölu, salerni og fleira.

Í rúmlega eitt ár hafa eigendur annarrar lóðar við Reykjanesvita undirbúið byggingu 140 fm þjónustumiðstöðvar við Reykjanesvita. Fyrirtækið á bak við þau áform heitir Vitavörðurinn ehf. og er í eigu þriggja dætra Sigurjóns Ólafssonar sem var vitavörður á Reykjanesi frá 1947 til 1976. Íbúðarhúsið við vitann er í eigu þeirra og er ætlunin að byggja þjónustumiðstöð við hlið þess, í framtíðinni hótel þar á bak við og að hafa ráðstefnuhús í gamla vitavarðarhúsinu. Gréta Súsanna Fjeldsted er í forsvari fyrirtækisins og segir hún það hafa komið sér á óvart þegar hún sá að Reykjanes Geopark væri að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að byggja á næstu lóð. „Í ferlinu hafði ég verið í reglulegu sambandi við ýmsa embættismenn hjá Reykjanesbæ og það kom aldrei upp í umræðunni og önnur þjónustubygging væri að rísa þarna. Byggingin á vegum Reykjanes Geopark á að rísa við túnfótinn á lóðinni minni. Ég fékk leyfi frá Minjastofnun í febrúar í fyrra til að byggja og byggingaleyfi frá Reykjanesbæ 6. janúar síðastliðinn. Ég er komin með sterka fjárfesta og byggingastjóra og er því tilbúin að hefja framkvæmdir,“ segir hún.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að sögn Róberts Ragnarssonar, formanns stjórnar Reykjanes Geopark, var þeim kunnugt um að eigendur íbúðarhúss við Reykjanesvita hafi í nokkur ár haft áhuga á að byggja upp þjónustu og hafi fengið byggingarleyfi fyrir byggingu húss innan lóðarinnar. „Reykjanesbær og Reykjanes UNESCO Geopark hafa auglýst lausa lóð á svæðinu og hafa fjórir aðilar lýst yfir áhuga á uppbyggingu þjónustumiðstöðvar, veitingahúss og gistingar. Upplýsingaöflun stendur yfir og verður málið rætt á næsta fundi stjórnar. Það er hvorki hlutverk sveitarfélaga né geoparka að takmarka samkeppni. Markaðsaðstæður og fjármögnun ráða því hvort annað eða bæði verkefnin verða að veruleika,“ segir hann.

Gréta telur of mikið að byggja tvær þjónustubyggingar við Reykjanesvita. „Þá væri einfaldlega verið að eyðileggja svæðið sem er það fallegasta á Suðurnesjum. Ég óttast að það fólk sem þessu ræður skilji ekki hversu fallegur staðurinn er. Ég er tilbúin til samstarfs um þjónustu við Reykjanesvita og vona innilega að af því verði.“

Eysteinn Eyjólfsson, formaður Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, fagnar auknum áhuga á uppbyggingu á svæðinu. Þar sé mikil umferð, mikill ágangur og þjónustu skorti. „Svæðið við Valahnúk á Reykjanesi er dýrmæt perla sem við Suðurnesjamenn höfum ekki sinnt sem skyldi. Breyting hefur þó orðið á því á síðustu árum eins sést meðal annars í nýju og skynsömu deiliskipulagi sem tekur gildi á vordögum.“

KÖNNUN