Tvær sjálfstæðar nefndir taka við umhverfis- og skipulagsmálum í Vogum
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur afgreitt breytingu á samþykktum um stjórn sveitarfélagsins. Í því fólst sú megin breyting að Umhverfis- og skipulagsnefnd yrði aflögð í núverandi mynd, en í hennar stað settar á stofn tvær sjálfstæðar nefndir, Umhverfisnefnd og Skipulagsnefnd.
Að aflokinni afgreiðslu bæjarstjórnar á breytingu samþykktanna voru erindisbréf hinna nýju nefnda samþykkt. Að því loknu var síðan kosið í nefndirnar. Nefndirnar munu nú í kjölfarið hefja störf, og sinna þeim mikilvægu málaflokkum sem undir þær heyra.