Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tvær og hálf milljón til umhverfismála
Miðvikudagur 16. apríl 2014 kl. 16:55

Tvær og hálf milljón til umhverfismála

– Þrettán aðilar fá styrki frá Fríhöfninni

Í dag voru 13 styrkir veittir úr umhverfissjóði Fríhafnarinnar við hátíðlega athöfn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. 
 
Það var Þórólfur Árnason, stjórnarformaður Fríhafnarinnar sem setti athöfnina og Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri afhenti styrkina. 
 
Þetta er annað árið sem styrkir eru veittir úr umhverfissjóðnum. Sjóðurinn var stofnaður í maí árið 2012 með það að markmiði að styrkja verkefni á sviði umhverfisverndar, með áherslu á nærsvæði starfsstöðva Fríhafnarinnar. Samþykkt var að 5 krónur af hverjum seldum plastpoka skyldu renna í sjóðinn. Alls nemaþeir styrkir sem veittir voru í dag tveimur og hálfri milljón króna. Fjölmargir sóttu um í sjóðinn, en ákveðið var að veita 13 aðilum styrk í fjölbreytt uppbyggingar- og hreinsunar verkefni á mismunandi sviðum. 
 
Eftirtaldir aðilar hlutu styrk úr sjóðnum: Keflavíkursókn hlaut styrk til grænmetisræktunar. Verkefnið Letigarðar í Keflavíkurkirkju er verkefni Keflavíkursóknar en kirkjan hlaut styrk til grænmetisræktunar. Gróðurkössum verður komið fyrir í lokuðum garði milli kirkju og safnaðarheimilis og verður þar ræktað grænmeti sem nýtist við matseld í kirkjunni. Vikulega elda sjálfboðaliðar máltíð fyrir 150 messugesti auk annarra máltíða, m.a. fyrir eldri borgara á Suðurnesjum. Stefnt er að því að uppskeran verði nýtt í þessa matseld en um leið yrði hún hvatning fyrir gesti kirkjunnar til þess að auka sjálfbærni í sínu heimilishaldi S.l. haust steig Keflavíkurkirkja stórt skref í þá átt að verða græn kirkja. Allt sorp frá kirkjunni er nú flokkað og er lífrænum úrgangi komið fyrir í safnhaugi í samstarfi við kirkjugarðana. 
 
Þekkingarsetur Suðurnesja, Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum og Náttúrustofa Suðvesturlands hafa undanfarið unnið að grunnrannsóknum á fjörusvæðum á Reykjanesskaganum og kortlagningu á vistfræði fjara á Suðvesturlandi. Þekkingarsetrið hlaut styrk til áframhaldandi rannsókna á fjöruvistsvæði Reykjanesskagans. 
 
Keflavíkurflugvelli, 16. apríl 2014 Leikskólinn Holt sem er umhverfisvænn leikskóli hlaut styrk til áframhalds verkefnis í umhverfismálum sem hann hefur unnið að í mörg ár. Verkefnið snýr að því að efla umhverfisvitund hjá börnum á leikskólanum. Margar leiðir eru farnar í þeim efnum en eitt af því er t.d gróðursetning trjáa, bæði innan og utan leikskólasvæðis. 
 
Keilir – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs hlaut styrk sem lýtur að því að fá ungt fólk og listamenn (bæði innlenda og erlenda) til að búa og starfa á Ásbrú í skemmri tíma við listsköpun. Um leið eiga aðilarnir að vinna að útilistaverkum og umhverfislist sem prýða eiga svæðið og brjóta upp það einhæfa útlit sem fjölbýlishúsin á Ásbrú annars bjóða uppá. 
 
Skotdeild Keflavíkur hlaut styrk til umhverfisátaks og uppbyggingar á skotsvæði félagsins á Hafnarheiðinni. Verkefnið er til þess fallið að fegra svæðið og rækta landið. 
 
Myllubakkaskóli vinnur að uppbyggingu á útikennslusvæði við gamla Miðtúnsróló. Áætlað er að fara í jarðvegsskipti að hluta til á svæðinu, byggja upp litlar manir, tyrfa að hluta, setja upp eldstæði, drumba (sæti), skýli og leiktæki. Starfsmenn skólans, nemendur og foreldrar koma að vinnunni og hlaut skólinn styrk til verkefnisins. 
 
Ungmennafélagið Þróttur hlaut styrk til gróðursetningar trjáa og fegrunar svæðis við knattspyrnuvöllinn í Vogum. Hinn glæsilegi knattspyrnuvöllur var vígður í ágúst 2012 og því mikilvægt að fegra umhverfi hans. 
 
Lionsklúbbur Grindavíkur hlaut styrk til gróðursetningar trjáplanta á svæði við Grindavík ásamt því að útbúa göngustíga og setja upp skilti og merkingar fyrir útivistafólk. 
 
Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Keflavíkur hlaut styrk til að fegra umhverfi keppnis- og æfingasvæði barna og unglinga. Svæðið er staðsett við Reykjaneshöllina og ætla iðkendur og fjölskyldur þeirra að hjálpast að við að gróðursetja og snyrta umhverfið. 
 
Ungmennafélag Njarðvíkur (UMFN) hlaut styrk til gróðursetningu trjáa við keppnis- og æfingasvæði deildarinnar í Njarðvík. Markmið þessa verkefnis er að bæta og fegra aðstöðu svæðisins. 
 
Áhugahópurinn Heiðafélagið hlaut styrk til gróðursetningar trjáa á Miðnesheiðinni í nágrenni flugstöðvarinnar. Heiðafélagið leggur til mótframlag sem felst í gróðursetningu á trjánum ásamt því að útvega verkfæri og áburð. 
 
Blái herinn vinnur allan ársins hring að hreinsunarverkefnum ásamt því að fræða leikskólabörn um náttúruna og umhverfið, hann heldur fyrirlestra og hvetur fyrirtæki og sveitastjórnir til að tileinka sér bætt umhverfisvitund. Blái herinn hlaut styrk til áframhaldandi vinnu að 
þessum málum. 
 
Skógræktarfélag Grindavíkur leggur göngustíg að fallegum útsýnisstað sem sýnir miklar andstæður í náttúrunni þ.e. skóg, hraun, Bláa lónið og jarðvarmavirkjun, stígurinn verður fyrir ofan Selskóg við Þorbjörn og hlaut skógræktunarfélagið styrk til þessa verkefnis. 
 
Fríhöfnin óskar styrkþegum til hamingju með styrkina og þakkar þeim jafnframt fyrir þann dugnað og þá elju sem felst í allri þeirri vinnu sem þeir inna af hendi á sviði umhverfisverndar og uppbyggingar, oft og tíðum í sjálfboðavinnu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024