Tuttugu og þrír sóttu um hæli í gær
	Tuttugu og þrír einstaklingar sóttu um hæli á Íslandi við komuna til Keflavíkurflugvallar í gær. Þetta staðfestir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Um var að ræða fimm fjölskyldur og einn einstakling. Aldrei áður hafa jafn margir sótt um hæli á Íslandi á einum degi.
	
	Gunnar segir að fólkið komi frá Makedóníu og Albaníu og hafi komið hingað í gegnum Búdapest í Ungverjalandi. Móttökumiðstöð hælisleitenda tók við fólkinu í gærkvöldi.
	
	Gunnar Schram segir í samtali við Víkurfréttir að miklar annir hafi verið síðustu daga vegna hælisleitenda og stefni í að þeir verði 700 á árinu með sama áframhaldi en í fyrra voru hælisleitendur 350 allt árið. Þeirri tölu var náð núna í ágúst.
	
	Fjölga þarf starfsmönnum hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum í flugstöðinni til að takast á við aukin verkefni og sagði Gunnar að óskað hafi verið eftir fjölgun starfa til að bregðast við ástandinu.


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				